„Ótrúlega dugleg að mæta á aukaæfingar“

Nemendur Heiðarskóla fagna 1. sætinu í Laugardalshöll í gærkvöldi.
Nemendur Heiðarskóla fagna 1. sætinu í Laugardalshöll í gærkvöldi. Haraldur Jónasson/Hari

Liðsheildin skóp sigurinn, að sögn keppenda og þjálfara í Skólahreystiliði Heiðarskóla í Reykjanesbæ, sem sigraði í lokakeppni Skólahreysti í gærkvöldi. Þetta er í þriðja sinn sem Heiðarskóli ber sigur úr býtum í Skólahreysti og það er ekki endilega nein tilviljun, því skólinn leggur mikinn metnað í keppnina.

„Þau voru ofarlega alstaðar og það er það sem skiptir mestu máli, að það sé jafnvægi í liðinu. Það er það sem skapar sigurinn, ekkert endilega ein grein frekar en önnur, það er bara þessi liðsheild, allir eru að gera sitt allra besta og það er það sem þau náðu að gera,“ segir Helena Ósk Jónsdóttir, íþróttakennari og þjálfari liðsins í samtali við mbl.is.

Myndaveisla frá úrslitakvöldi Skólahreystis

Keppendurnir Ingibjörg, Bartosz, Eyþór, Ástrós, Hildur, Jóna og Andri söfnuðust saman á skrifstofu skólastjóra í morgun og ræddu við mbl.is um sigurinn. Þau segja það mjög góða tilfinningu að hafa unnið Skólahreysti fyrir hönd skólans, en keppnin hafi verið erfið, spennandi og samkeppnin frá hinum skólunum hafi verið mikil.

En hvað þykir þeim best við að taka þátt í Skólahreysti?

„Upplifunin, að fá að vera fyrirmynd fyrir skólann, nemendurna og yngri krakkana og undirbúningurinn fyrir þetta,“ segir Eyþór, sem keppti í hraðabrautinni í gærkvöldi ásamt Ingibjörgu.

Sigurliðið hampar bikarnum í gærkvöldi.
Sigurliðið hampar bikarnum í gærkvöldi. mbl.is/​Hari

Þau Eyþór og Ingibjörg voru fljótari en allir aðrir í hraðabrautinni, en Helena þjálfari segir að lokakeppnin hafi fyrirfram að sögn kunnugra aldrei verið jafnari.

„Það voru allir með það á bak við eyrað og vissu það að þeir þyrftu að gera sitt allra besta og leggja sitt af mörkum. Þetta var mjög spennandi og var ekkert alveg sjálfgefið eftir hraðabrautina, þó að við vissum auðvitað að við værum í góðum málum,“ segir Helena.

Liðsmenn segja að þau hafi hafi heilt yfir bætt sig í gærkvöldi frá því í undankeppninni þann 15. mars síðastliðinn. Það skýrist mögulega af markvissum æfingum.

„Þau eru búin að vera ótrúlega dugleg að mæta á aukaæfingar, síðan í undanúrslitum er búið að eyða næstum öllum sunnudagskvöldum í aukaæfingar og frídögum líka,“ segir Helena.

Bjóða upp á val í Skólahreysti

Strákarnir þrír í liðinu eru allir í 9. bekk rétt eins og Hildur og gætu þau því tekið þátt í keppninni að ári líka. En það er þó að sjálfsögðu ekki sjálfgefið því margir vilja komast að.

Í Heiðarskóla er nemendum í 9. og 10. bekk boðið upp á að taka Skólahreysti sem valfag fyrir áramót og síðan er haldin undankeppni innan skólans í desember. Þeir sem standa sig best þar halda svo áfram í Skólahreysti-vali eftir áramót og æfa markvisst.

„Þetta er mjög markvisst frá því  í janúar,“ segir Helena, en 8. bekkingum í Heiðarskóla er einnig boðið upp á að taka Skólahreysti í vali, þrátt fyrir að þau séu ekki gjaldgengir keppendur fyrr en ári seinna. Á næstu vikum verður einnig haldin Skólahreysti-keppni innan skólans fyrir fimmta, sjötta og sjöunda bekk og ljóst að áhuginn er mikill innan skólans.

„Það sem við erum að segja við okkar krakka hérna og nemendur er að þetta eru ekki bara flottir íþróttakrakkar, heldur líka flottar fyrirmyndir varðandi framkomu og virðingu gagnvart öllu, gagnvart sjálfum sér, gagnvart keppninni og gagnvart mótherjum sínum,“ segir Haraldur Axel Einarsson, skólastjóri Heiðarskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert