Brustu í söng í vegabréfsskoðuninni

Karlakórinn Fóstbræður kom farþegum í Leifsstöð skemmtilega á óvart nú síðdegis er þeir tóku lagið innan vegabréfaskoðunarinnar. „Við erum á leið til Seattle þar sem við munum syngja við vígslu The Nordic Heritage Museum,“ sagði Arnibjörn Vilhjálmsson, formaður Fóstbræðra, í samtali við mbl.is.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú verða einnig viðstödd vígsluna á norræna safninu og héldu þau af landi brott í gær.

„Við tókum lagið innan vegabréfsskoðunarinnar,“ segir Arinbjörn. Hann kveður þetta væntanlega fjölmennasta karlakór sem farið hafi út fyrir landsteinana, en alls eru 69 kórfélagar Fóstbræðra nú á leið til Seattle. „Við förum í tveimur vélum og tókum lagið áður en sú fyrri fór í loftið.“

Arinbjörn segir þá hafa sungið lagið Þó þú langförull legðir, lag Sigvalda Kaldalóns við ljóð Stefáns G. Stefánssonar en það verður einnig fyrsta lagið sem mun hljóma í þessari nýju menningarmiðstöð.

Gestir Leifsstöðvar virtust líka kunna vel að meta þessa óvæntu tónleika og sáust ófáir símar á lofti þegar söngurinn brast á.

Auk flutningsins í The Nordic Heritage Museum þá munu Fóstbræður einnig verða með sína eigin tónleika í Seattle á mánudag.

Það vakti athygli ferðalanga er Fóstbræður brustu í söng í …
Það vakti athygli ferðalanga er Fóstbræður brustu í söng í vegabréfaskoðuninni. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert