Ekki hróflað við fallegum svæðum

Fossinn Drynjandi í Hvalá er sjötíu metra hár. Birna segir …
Fossinn Drynjandi í Hvalá er sjötíu metra hár. Birna segir ekkert verða hróflað við giljum og árfarvegum á slóðum Hvalárvirkjunar og að hægt verði að hafa gott rennsli í ám yfir ferðamannatímann. mbl.is/Golli

Ekki er verið að hrófla við neinum svæðum sem teljast falleg á því svæði þar sem Hvalárvirkjun á að rísa. Þetta sagði Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi VesturVerks, á opnum fundi um raforkumál á Vestfjörðum nú síðdegis.

„Þeir sem þekkja til uppi á Ófeigsfjarðarheiði vita að það er nú ekki mjög gróðursælt þar uppi. Þetta er veðurfarslega mjög erfitt svæði og þeir sem þekkja best til telja að það sé kannski hægt að fara þar um í mánuð á hverju ári,“ sagði hún. Seint í júlí sé þokkalega fært og svo sé aftur komið vont veður þar uppi í lok ágúst. „Þannig að þetta er stuttur tími sem hægt er að njóta þarna á þessu svæði,“ sagði Birna.

„Við erum ekki að hrófla við neinum svæðum sem teljast falleg á þessum slóðum,“ bætti hún við og kvað það þó væntanlega vera helst svæðið milli Ófeigsfjarðar og Ingólfsfjarðar. „Það er talið mikil náttúruperla. Við erum hins vegar víðsfjarri og ekki verður hróflað við því.“

Það liggi þó í hlutarins eðli að rennsli í ám og fossum muni minnka. „Við höfum þó öll tækifæri til að stýra því rennsli og hafa þá með ágætum yfir aðalferðamannatímann þannig [að] ferðafólk sem fer þarna um svæðið muni njóta fossanna með sama hætti og nú,“ sagði Birna og kvað allar framkvæmdir þeim tengdar verða afturkræfar.

Ekkert hróflað við giljum og árfarvegum

„Það er ekkert hróflað við giljum og árfarvegum á þessum slóðum sem um er rætt. Stíflur hafi verið minnkaðar frá upprunalegum áætlunum, sagði Birna og kvað hún þetta vera mótvægisaðgerðir sem munaði um og benti á að stíflurnar hefðu lækkað um fimm metra hver. „Þetta þýðir það að lón munu minnka og efnisnotkun. Þannig að þetta er liður í mótvægisaðgerðum.“

Erindi Birnu nefndist Hvað viltu vita um Hvalárvirkjun? en hún sagði VesturVerk þó ekki bara horfa á Hvalá sem virkjanakost. „Heldur horfum við einnig inn í Ísafjarðardjúp að Skúfnavötnum og Hvanneyrardalsá,“ sagði Birna og bætti við að einnig væri verið að skoða Hest- og Skutulsfjörð.

Áhrifasvæði Hvalárvirkjunar.
Áhrifasvæði Hvalárvirkjunar. mbl.is/Kristinn Garðarsson

Hvað Hvalárvirkjun varði sé hins vegar gert ráð fyrir að virkjunin verði 55 megavött og að kostnaðurinn verði 21 milljarður króna. Þá megi áætla að 350 ársverk verði til á framkvæmdatímanum. „Og ef allt gengi nú að óskum, þá er hægt að hefja orkuframleiðslu árið 2022,“ segir Birna og bætir við að þau hjá VesturVerki séu engu að síður raunsæ hvað slíkar áætlanir varði. „En maður verður að setja sér markmið,“ bætti hún við.

Bíða ákvörðunar Skipulagsstofnunar

Fyrirhugaðar framkvæmdir við Hvalárvirkjun eru ekki nýjar af nálinni, enda hefur virkjunin verið í undirbúningi í meira en áratug og Árneshreppur hefur sömuleiðis lengi verið með málið í undirbúningi hjá sér. Hreppurinn hefur til að mynda unnið að því frá árinu 2010 að koma virkjuninni inn á skipulag hjá sér.

„Það gerðist svo þann 30. janúar að hreppsnefnd samþykkti fyrri hluta skipulagsbreytinganna sem lúta fyrst og fremst að undirbúningi framkvæmdanna, m.a. vegagerð og efnistöku. Við erum að bíða eftir staðfestingu Skipulagsstofnunar á aðalskipulagi, því fyrr er ekki hægt að sækja um framkvæmdaleyfi til hreppsins,“ segir Birna og kveður VesturVerk ekki sitja auðum höndum á meðan.

Vinna sé nú í gangi við seinni hluti breytinganna. „Það eru tillögur sem innihalda sjálfa virkjunina, hlaðhús og gestastofu, þar sem verði aðstaða fyrir ferðamenn og starfsfólk VesturVerks á framkvæmdatímanum. Þarna erum við með hugmyndir um að reisa bara mjög myndarlegt hús sem væri fallegt í umhverfinu sem áhugasamir einkaaðilar gætu svo tekið að sér að reka sem ferðaþjónusta og upplýsingasetur.“

Kallað eftir samfélagsverkefnum fyrir hreppinn

Birna sagði lengi hafa verið kallað eftir samfélagsverkefnum í tengslum við framkvæmdina og að frá því að viðræður hófust hafi verið kallað eftir hvað hvað VesturVerk hafi hugsað sér að gera fyrir Árneshrepp og svarið sé að koma á þriggja fasa rafmagni og ljósleiðara í Árneshreppi.

„Það er stóra málið fyrir þetta samfélag, sem með þessu fengi nútímalega tengingu við rafmang og ljósleiðara sem yrði með því besta sem völ er á,“ sagði Birna og kvað þetta verða gert snemma í ferlinu. „Því við þurfum þessa orku.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert