Fá fjórar nýjar slökkvibifreiðar í einu

Við undirritun samnings um fjórar nýjar slökkvibifreiðar í dag.
Við undirritun samnings um fjórar nýjar slökkvibifreiðar í dag. Ljósmynd/SHS

Stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins undirritaði í dag nýja brunavarnaáætlun og samning um kaup á fjórum nýjum slökkvibifreiðum í bílasal slökkviliðsins í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð.

Formaður stjórnar slökkviliðsins, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, ásamt Birni Karlssyni forstjóra Mannvirkjastofnunar og Jóni Viðari Matthíassyni slökkviliðsstjóra undirrituðu nýja brunavarnaáætlun sem sveitarfélögin hafa staðfest og er stefnumótandi til næstu ára varðandi þá þjónustu sem slökkviliðið veitir höfuðborgarbúum.

Þá undirrituðu borgarstjóri og Benedikt Einar Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá Ólafi Gíslasyni & Co. hf., samning um kaup á fjórum nýjum slökkvibifreiðum sem áætlað er að komi til landsins á næsta ári. Er þetta í fyrsta sinn sem slökkviliðið fær fjórar nýjar bifreiðar í einu og verður það mikil lyftistöng fyrir starfsemina því  veruleg þörf er orðin fyrir endurnýjun, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Frá undirritun nýrrar brunavarnaráætlunar.
Frá undirritun nýrrar brunavarnaráætlunar. Ljósmynd/SHS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert