Ljósmæður ekki með neitt í hendi

Kjaradeila ljósmæðra hefur staðið í rúmlega hálft ár.
Kjaradeila ljósmæðra hefur staðið í rúmlega hálft ár. mbl.is/Eggert

„Við erum í rauninni ekki með neitt í hendi, því miður,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, við mbl.is, að loknum óformlegum fundi með heilbrigðisráðherra.

„Það hefði verið dásamlegt að klára þetta á morgun,“ segir Katrín en á morgun er alþjóðlegur dagur ljósmæðra. Kjaradeila ljósmæðra hefur staðið í rúmlega hálft ár en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagðist á þingi í gær styðja ljósmæður í kjarabaráttu sinni.

„Það var samtal og maður finnur að heilbrigðisráðherra hefur hug til að leggja sitt af mörkum og reyna hvað hún getur til að koma að þessu,“ segir Katrín en eins og áður hefur verið bent á heyra viðræður ekki beint undir heilbrigðisráðherra, heldur fjármála- og efnahagsráðherra.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurð hvort að það lægi þá ekki beint við að ræða við Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði Katrín svo vera. „Við höfum bara ekki fengið neitt. Hann gefur ekkert færi á sér.

Hún sagðist finna að það væri vilji í heilbrigðisráðuneytinu og á þingi til að klára þessi mál. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert