Eitraður matur í húsgarði í Hveragerði

Einn köttur er látinn og tveir liggja þungt haldnir á …
Einn köttur er látinn og tveir liggja þungt haldnir á Dýraspítalanum. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Styrmir Kári

Einn köttur er dauður og tveir liggja þungt haldnir á Dýraspítalanum eftir að hafa komist í mat sem að öllum líkindum var mengaður með frostlegi í Hveragerði í gær. Kattaníð hefur verið þrálátur vandi í Hveragerði undanfarin fimmtán ár en nú segir Helena Rafnsdóttir, dýravinur og sjálfboðaliði hjá Villiköttum á Suðurlandi, allt vera orðið vitlaust.

„Fyrir páska fundust ostateningar sem höfðu verið sprautaðir með einhverju á víð og dreif en það lenti sem betur fer enginn köttur í því vegna þess að fólk fór bara út að tína. Svo gerist þetta í gær og miðað við eitrunina sem var í köttunum er talið að þetta hafi verið frostlögur,“ segir Helena, en frostlögur verður til þess að nýrnastarfsemi dýranna hættir og er eitrunin mjög sársaukafull.

Kettirnir þrír eru frá heimilum á sömu lóð, en túnfiskur í smjördollu fannst á grunsamlegum stað á milli lóðarinnar og þeirrar næstu. Túnfiskurinn er til rannsóknar hjá lögreglu. „Þarna eru mjög lítil börn sem hefðu getað farið í þetta.“

Keyrt yfir ketti og þeir klipptir í sundur

„Við viljum bara að þetta sé stoppað. Bæjaryfirvöld í Hveragerði tala eins og það sé ekkert að gerast. Í viðtali fyrir nokkrum mánuðum sagði bæjarstjóri að ekki væri meira um þetta þar en annarsstaðar,“ segir Helena og vitnar í umfjöllun DV um málið.

Hún segir bæjaryfirvöld loka augunum fyrir málinu enda sé það vont fyrir Hveragerði sem bæ. Helena er sjálf búsett á Flúðum og sagðist hafa íhugað að kaupa sér hús í Hveragerði en segir ekki möguleika á því að hún flytji þangað á meðan ástandið sé svona.

„Þetta er allt að gerast á sama svæðinu í gamla hverfinu og er búið að vera síðustu fimmtán ár. Þetta er allt einn og sami einstaklingurinn sem er að eitra, og ég gæti trúað því að það sé þessi sami einstaklingur sem er að leika sér að keyra yfir ketti og klippa þá í sundur.“

Hún segir Matvælastofnun vera að gera sitt til að leysa málið en veit ekki til þess að lögregla sé að gera mikið, þó lögreglan segist vera að vinna að þessu. „En MAST þarf að hafa einhverja haldbæra sönnun til þess að geta gert eitthvað.“

„Kettir eru að hverfa mjög mikið þarna, það eru óvenjulega margir sem gufa bara upp. Þetta er ekki svona neins staðar. Það er mjög mikil reiði núna og það eru að koma kosningar svo við ætlum að vekja enn meiri athygli á þessu,“ segir Helena og spyr sig hvað þurfi að gerast til að eitthvað sé gert í málinu.

„Hvað þarf að gerast?“ spyr hún. „Þarf barn að deyja?“

Uppfært kl. 15:15: Upphaflega var greint frá því að kettirnir kæmu allir frá sama heimili og að þeir hefðu hlotið eitrun frá smjöri og túnfiski sem hafi verið mengað, líklega með frostlegi. Rétt er að kettirnir eru allir frá heimilum á sömu lóð, og verið er að rannsaka hvort túnfiskur í smjördollu, sem fannst við lóðina, hafi verið mengaður með frostlegi.

mbl.is

Bloggað um fréttina