Takmarkað sem bærinn getur gert

Hveragerði
Hveragerði

„Ég mótmæli því að bæjaryfirvöld hafi ekki tekið þetta alvarlega,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðis, en einn köttur drapst og tveir liggja þungt haldnir á Dýraspítalanum eftir að hafa orðið fyrir eitrun í bænum í gær, líklega frá frostlegi.

Eigandi eins kattarins, auk viðmælanda mbl.is, telja líklegt að kettirnir hafi komist í túnfisk sem fannst í húsgarði í bænum, en lögreglan hefur það til rannsóknar hvort frostlegi hafi verið hleypt í túnfiskinn.

Dýraníðsmál hafa áður komið upp í Hveragerði, en í ágúst árið 2015 drápust þrír kettir eftir að hafa komist í fiskiflök sem sprautuð höfðu verið með frostlegi. Fleiri kettir hafa drepist síðan þá vegna eitrunar en ekki hefur verið staðfest hvaðan þeir komust í eitrið. Þá fannst sundurskorinn köttur í bænum í september á síðasta ári.

Íbúar halda því fram að dýraníðingur gangi laus og viðmælandi mbl.is sakaði bæjaryfirvöld um að loka augunum fyrir málinu. Því neitar Aldís alfarið, auk þess sem hún segir ketti geta komist í frostlög án þess að eitrað hafi verið fyrir þeim. „Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því í hverju eitrunin fólst.“

„Það sem við viljum ekki er að íbúar grípi til einhverra aðgerða utan við lög og reglur. Lögreglan verður að rannsaka þetta. Bærinn getur ekki gert neitt annað heldur en að taka þetta alvarlega, sem þeir gera, og grípa til allra þeirra aðgerða sem þeir geta.“

Hún segir málið vissulega alvarlegt en það sé takmarkað sem bærinn geti gert. Hún hafi margoft átt fundi með lögreglu vegna málsins og hvatt til þess að það yrði rannsakað. „Þetta er lögreglumál. Ef að þarna hefur átt sér stað eitthvað glæpsamlegt athæfi þá er það lögreglunnar að finna út úr því. Við sem íbúar þessa lands verðum að treysta því að hún grípi til réttra aðgerða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert