„Skammarleg kveðja frá fjármálaráðherra“

Katrín segist sjá fram á að landið verði ljósmóðurlaust innan …
Katrín segist sjá fram á að landið verði ljósmóðurlaust innan hálfs árs. mbl.is/Golli

„Enn eitt kjaftshöggið,“ segir Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, í samtali við mbl.is um orð sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lét falla í viðtali við RÚV fyrr í kvöld. Hún segir það ekki koma til greina að skrifa undir 4,21% launahækkun.

Rúv hefur eftir Bjarna að kröfur ljósmæðra séu um tuttugu prósentum hærri en það sem ríkið er reiðubúið að semja um og að ekki sé hægt að hækka laun ljósmæðra margfalt meira en laun annarra hópa.

„Þetta eru kaldar kveðjur á alþjóðlegum degi ljósmæðra hreint út sagt, loksins þegar maðurinn opnar munninn,“ segir Katrín. „Þessir svokölluðu samningafundir eru engir samningafundir, það er bara illa farið með almannafé í sýndarmennsku. Það er skömm að þessu og mér finnst þetta skammarleg kveðja frá fjármálaráðherra,“ segir hún.

Umboðsleysi samninganefndar

Samkvæmt Katrínu hefur samninganefnd ríkisins ekki nægilegt umboð til þess að leysa deiluna þar sem hún hafi aðeins getað rætt 4,21% hækkun launa.

Katrín segir kveðjurnar frá fjármálaráðherra skammarlegar.
Katrín segir kveðjurnar frá fjármálaráðherra skammarlegar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það hefur aldrei verið til umræðu að skoða neitt. Það er alveg sama hvað við höfum lagt fram af gögnum og pappírum og lagt fram rökfærslu, þá hefur maður alveg fundið það að þeir hafa ekki haft neitt umboð til samningaviðræðna. Enda hafa ekki verið neinar viðræður í gangi, það hefur verið boðað á fundi sem manni hefur fundist vera bara einhver sýndarleikur,“ segir formaðurinn.

Katrín segir ljósmæður ekki vera að tala um launahækkanir umfram aðra hópa, heldur um löngu tímabæra og réttlætanlega launaleiðréttingu. „Við höfum setið eftir og þagað og brosað og hlaupið hraðar fyrir okkar vinnuveitanda svo árum skiptir. Loksins þegar við ætlum að standa á okkar fáum við svona kaldar kveðjur trekk í trekk úr öllum áttum og [frá] ríkisstjórninni. Þetta er ömurlegt.“

Spurð um næstu skref í deilu ljósmæðra við ríkið segist Katrín svartsýn. „Framhaldið sé ég bara þannig að það verður ljósmóðurlaust Ísland innan hálfs árs. Það mun engin ljósmóðir starfa áfram á þessum kjörum. Það verður aldrei skrifað undir 4,21% og engar leiðréttingar, það verður ekki gert,“ staðhæfir hún.

Deilur ljósmæðra við ríkið munu líklega harðna.
Deilur ljósmæðra við ríkið munu líklega harðna. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert