Vinni orkustefnu fyrir Ísland

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, vonast til …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, vonast til að niðurstaðan getir orðið einskonar þjóðarsátt um orkumál. mbl.is/Golli

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur skipað starfshóp með aðkomu allra þingflokka til að vinna orkustefnu fyrir Ísland. Þess er vænst að tillaga hópsins verði lögð fram til umræðu á Alþingi í byrjun árs 2020.

Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir er formaður hópsins.

Kveðið er á um gerð langtímaorkustefnu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Tillaga Þórdísar Kolbrúnar um tilhögun verkefnisins var samþykkt í ríkisstjórn þann 19. janúar sl. og í kjölfarið var óskað eftir tilnefningum í starfshópinn, að því er segir á vef Stjórnarráðsins. 

Þórdís segir að ef vel tekst til geti niðurstaðan orðið eins konar þjóðarsátt um orkumál sem hægt verði að byggja á til langrar framtíðar.

Miðað er við að orkustefnan verði sett til 20-30 ára og sæti endurskoðun á nokkurra ára fresti. Þættir sem horfa skal til eru meðal annars:

  • Áætluð orkuþörf til langs tíma
  • Hvernig tryggja megi raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf
  • Orkuöryggi heimila og fyrirtækja um land allt
  • Sjálfbær nýting orkuauðlinda
  • Áframhald orkuskipta og aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskapnum
  • Nýsköpun í orkumálum
  • Aukið afhendingaröryggi raforku á landsvísu
  • Hvernig treysta megi flutnings- og dreifikerfi raforku
  • Auknar rannsóknir, m.a. varðandi nýja orkukosti
  • Útflutningur hugvits og þekkingar á sviði orkumála
  • Efling samráðs vegna framkvæmda á fyrri stigum og opið aðgengi að ákvarðanatöku
  • Efling samkeppni á raforkumarkaði
  • Samspil orkumála við ímynd Íslands, markaðssetningu og tengsl við lykilatvinnugreinar
  • Framlag orkumála til loftslagsmála og samspil við alþjóðlegar skuldbindingar um loftslagsmál
  • Að hámarka samfélagslegan ávinning af nýtingu orku
  • Tekjustreymi af orkuinnviðum, að arður af nýtingu orkuauðlinda renni til þjóðarinnar og tekið sé tillit til nærsamfélaga
  • Fyrirkomulag gjaldtöku í tengslum við nýtingu orkuauðlinda í opinberri eigu
  • Viðbrögð við náttúruvá og tenging við almannavarnir
  • Hugmyndir um útflutning raforku um sæstreng
  • Stuðningur stefnunnar við atvinnustefnu og samspil við lykilatvinnugreinar
  • Stuðningur stefnunnar við byggðastefnu og jákvæða byggðaþróun til lengri tíma
  • Möguleikar nýrrar tækni m.a. á sviði vindorku, djúpborunar og sjávarfallaorku

Starfshópinn skipa:

  • Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, formaður
  • Páll Jensson, varaformaður
  • Albertína F. Elíasdóttir, tilnefnd af þingflokki Samfylkingarinnar
  • Árni V. Friðriksson, tilnefndur af þingflokki Miðflokksins
  • Halla Signý Kristjánsdóttir, tilnefnd af þingflokki Framsóknarflokksins
  • Kolbeinn Óttarsson Proppé, tilnefndur af þingflokki Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs
  • Kristín Vala Ragnarsdóttir, tilnefnd af þingflokki Pírata
  • Njáll Trausti Friðbertsson, tilnefndur af þingflokki Sjálfstæðisflokksins
  • Ólafur Ísleifsson, tilnefndur af þingflokki Flokks fólksins
  • Þorsteinn Víglundsson, tilnefndur af þingflokki Viðreisnar
  • Brynhildur Davíðsdóttir, tilnefnd af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
  • Harpa Þórunn Pétursdóttir, tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
  • Magnús Júlíusson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu
  • Ólafur Kr. Hjörleifsson, tilnefndur af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu

Starfsmaður hópsins er Erla Sigríður Gestsdóttir sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Lagt er fyrir starfshópinn að hafa víðtækt samráð í störfum sínum, kalla eftir hugmyndum við upphaf starfs og leggja drög að langtímaorkustefnu fram í opið umsagnarferli þar sem öllum gefist færi á að senda inn athugasemdir og tillögur. Að lokinni úrvinnslu verði tillaga starfshópsins lögð fram á Alþingi til umræðu, eins og áður segir, í ársbyrjun 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert