Sjálfskaði alvarlegt og vaxandi vandamál

Flestar tilkynningar til barnaverndaryfirvalda snúast um vanrækslu.
Flestar tilkynningar til barnaverndaryfirvalda snúast um vanrækslu. mbl.is/Hari

Flestar tilkynningar sem berast til barnaverndaryfirvalda eru vegna vanrækslu en eins hefur ofbeldistilkynningum fjölgað. Þetta kom fram í fyrirlestri Ragnars Guðgeirssonar ráðgjafa, sem leiðir stefnumótunarverkefni á vegum velferðarráðuneytisins í málefnum barna, á ráðstefnu um snemmtæka íhlutun í málefni barna.

Í fyrra bárust 9.969 tilkynningar til barnaverndaryfirvalda en árið 2004 voru þær 5.555 talsins. Ragnar segir tilkynningum hafi fjölgað fyrst eftir hrun og eins hafi ýmis árverknisverkefni verið í gangi á tímabilinu sem var til skoðunar sem mögulega er að skila þeim árangri að tilkynningum fjölgar. En mögulega er þetta vegna þróunarinnar í samfélaginu, segir Ragnar.

Tilfinningalegt og sálrænt ofbeldi hefur aukist ef horft er á …
Tilfinningalegt og sálrænt ofbeldi hefur aukist ef horft er á tölur frá Barnaverndarstofu.

Ástæður tilkynninga hafa verið að breytast í gegnum tíðina og hefur vanrækslu- og ofbeldistilkynningum fjölgað, segir hann. Starfshópur sem hann stýrir hefur verið að rýna dýpra ofan í þessar tilkynningar og ástæður þeirra.

Í ljós hafi komið að afbrotatilkynningum barna hefur fækkað verulega, úr 22,7% árið 2004 í 8,1% árið 2017. Eins hefur tilkynningum um neyslu á vímuefnum fækkað mikið, úr 10,2% í 5,5%.

Ef ofbeldistilkynningar eru skoðaðar nánar vekur að sögn Ragnars athygli að tilkynningum vegna andlegs og sálræns ofbeldis fjölgar. 

Um 40% vanrækslutilkynninga eru tilfelli þar sem foreldrar eru í áfengis- eða vímuefnaneyslu. Um helmingur af þessum dæmum um tilfinningalegt ofbeldi er um  heimilisofbeldi að ræða.

Ragnar bendir á að vinna starfshópsins miði að því að skoða þróunina næstu 12 árin, það er til ársins 2030. Það þýði að börn og ungmenni sem eru til skoðunar í dag eru foreldrar í lok rannsóknar og eins þeir sem eru foreldrar í dag voru ungmenni þegar rannsóknin hófst, það er 2004. Á þeim tíma var mun meiri áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna en nú er. 

Ragnar segir að ákveðnir gallar séu á þessari tölfræði að hún nær ekki utan um hóp sem kallaður er týndu börnin. „Verðum að horfa á þetta með það í huga,“ segir Ragnar.

45% stúlkna hefur íhugað sjálfskaða og 28% stúlkna hefur skaðað …
45% stúlkna hefur íhugað sjálfskaða og 28% stúlkna hefur skaðað sig. mbl.is/Hari

Andleg líðan er frekar á niðurleið og sérstaklega hjá stelpum að sögn Ragnars og í raun sé verið að glíma við erfiða stöðu þar. 

Þegar Ragnar kynnti glærurnar á ráðstefnu velferðarráðuneytisins í morgun tók hann fram að ein glæran, sem sýnir hlutfall framhaldsskólanemenda á Íslandi sem hafa einu sinni eða oftar hugleitt að skaða sjálfa sig, greint eftir kynferði, árin 2010, 2013 og 2016, hafi skelft sig.

„Ég hélt að þetta væru tilvik en þetta eru prósentur,“ sagði Ragnar en 45% stúlkna í þessum hópi hefur íhugað sjálfskaða og 28% höfðu reynt.

Varðandi vímuefnanotkun þá nær rannsóknin aðeins til maríjúana og því ekki upplýsingar um neyslu annarra vímuefna. Hann segir að niðurstöðurnar bendi til þess að hópurinn sem neytir vímuefna fari minnkandi en heimurinn (neyslan) harðnandi. 

Strákar eru farnir að fara lítið út á kvöldin og það þykir kannski ekki endilega jákvætt því vitað er að þau sitji inni í herbergjum sínum en hvað þau hafi fyrir stafni sé annað mál. Eins hafi samfélagsmiðlanotkun stóraukist og er orðin mjög mikil á meðan tölvuleikjanotkun hefur ekki aukist. 

Því fyrr sem gripið er inn því meiri ávinningur

Bergljót Gyða Guðmundsdóttir sálfræðingur, kynnti Breiðholtsmódelið á ráðstefnunni en í Breiðholti hefur verið vel staðið að snemmtækri íhlutun. Þetta sé jákvætt og hafi skilað sér aftur inn í samfélagið. Peningarnir skila sér aftur til samfélagsins og því fyrr sem gripið er inn þá skilar það meiri árangri. Til stendur að innleiða Breiðholtsmódelið í allri Reykjavík en áherslan er lögð á að efla skólana sjálfa. Að þeir leysi vandamálin sjálfir með stuðningi frá sérfræðingum.

Biðlistar mótsögn við snemmtæka íhlutun

Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvarinnar, segir að staðan hjá ÞHS sé sú í dag að erfitt sé að framfylgja markmiðum um snemmtæka íhlutun. Verkefnin séu mun fleiri en mannafli stofnunarinnar getur sinnt og þar af leiðandi myndast biðlistar. Boðið sé upp á mismunandi námskeið en gallinn sé sá að til þess að geta haldið slík námskeið verði stofnunin að reiða sig á styrki. Þvi geti sú staða komið upp að óvissa ríki um hvort hægt er yfir höfuð að halda námskeiðin.

„Biðlistar eru mótsögn við snemmtæka íhlutun og ef við ætlum að geta sinnt henni þá verður að eyða biðlistum,“ segir Gyða og aðrir fyrirlesarar tóku í sama streng. Flestir ef ekki allir eru aftur á móti sammála um nauðsyn þess að kerfin vinni saman og unnið sé þvert á kerfi. Mikilvægt sé að vinna með börnum í nærumhverfi, það er á heimilum þeirra sem og skólum svo röskun á högum þeirra verði sem minnst.

Hér er hægt að skoða glærur þeirra sem fluttu erindi á ráðstefnunni

mbl.is

Bloggað um fréttina