Fjölskylduráðstefnur reynst vel

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fjölskylduráðstefnur hafa reynst vel þegar kemur að barnaverndarmálum í Noregi. Þetta kom fram í máli Svanhild Vik, sem starfar hjá barna-, ungmenna og fjölskyldustofnun Noregs, á opinni ráðstefnu um málefni barna sem fram fór á Nordica Hilton í Reykjavík í dag.

Vik fjallaði um þetta úrræði á ráðstefnunni en það kom fyrst fram á sjónarsviðið á Nýja-Sjálandi árið 1989 og hefur síðan verið tekið upp víða um heim og þróast. Notast er við það í um 30 ríkjum en það snýst um að fjölskyldumeðlimir og aðrir nánir vinir og vandamenn taki þátt í að móta og framfylgja áætlun um að vernda viðkomandi barn eða börn.

Benti Vik á að börn væru ekki eingöngu málefni foreldra þeirra heldur allra í kringum þau. Sagði hún fyrirkomulagið hliðstætt í grunninn í öllum þeim ríkjum sem tekið hafi úrræðið upp en engu að síður hafi það verið þróað á hverjum stað miðað við aðstæðurnar fyrir hendi.

Fullorðnir og börn mæla með úrræðinu

Sérþjálfaðir starfsmenn velferðarþjónustunnar sjá um að skipuleggja fjölskylduráðstefnur og hverjir taki þátt í þeim í samstarfi við þá og halda síðan utan um vinnuna á ráðstefnunum. Þeir sem taka þátt eru nánir fjölskyldumeðlimir og vinafólk sem hefur þýðingu fyrir umhverfi viðkomandi barna og einnig geta til að mynda gæludýr skipt þar máli.

Vik sagði að á síðasta ári hefðu 1500 fjölskylduráðstefnur átt sér stað og 750 árið 2013. Þannig væri ljóst að félagsráðgjafar tækju í vaxandi mæli ákvörðun um að beita úrræðinu í barnaverndarmálum. Bæði á sveitarstjórnarstiginu og á vegum ríkisins.

Beita mætti fjölskylduráðstefnum við ýmsar aðstæður. Bæði þegar samskipti væru erfið á milli foreldra barna í kjölfar skilnaðar og einnig þegar um heimilisofbeldi væri að ræða. Þannig fæli úrræðið í sér ákveðið ferli sem væri mjög sveigjanlegt og gæti þannig tekið mið af ólíkum aðstæðum og verið aðlagað að hverju viðfangsefni fyrir sig.

Vik sagði fullorðna og börn sem farið hefðu í gegnum fjölskylduráðstefnur mæltu með úrræðinu því við aðra sem væru mikil meðmæli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert