Fullnaðarhönnun rannsóknahúss í sumar

Rannsóknahúsið er hluti af heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut.
Rannsóknahúsið er hluti af heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut. Mynd/Aðsend

Nýr Landspítali ohf., í samstarfi við Ríkiskaup og Framkvæmdasýslu ríkisins, hefur afhent fjórum hönnunarteymum útboðsgögn vegna fullnaðarhönnunar nýs rannsóknahúss sem hefst í sumar.

Hönnunarteymin sem stóðust kröfur sem gerðar voru í forvalinu eru:

  • Grænaborg (Arkstudio ehf, Hnit verkfræðistofa, Landmótun, Raftákn, Yrki arkitektar)
  • Mannvit og Arkís arkitektar
  • Corpus3 (Basalt arkitektar, Hornsteinar arkitektar, Lota ehf og VSÓ ráðgjöf)
  • Verkís og TBL

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Rannsóknahúsið er hluti af heildaruppbyggingu Nýs Landspítala við Hringbraut. Aðrar byggingar eru meðferðarkjarninn, sem er stærsta byggingin í uppbyggingu Hringbrautarverkefnisins, nýtt sjúkrahótel, sem verður tekið í notkun á árinu og bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús.

„Fullnaðarhönnun nýs rannsóknarhúss í Hringbrautarverkefninu er enn einn áfanginn í verkáætlunum NLSH. Nýtt rannsóknahús mun skapa mikið hagræði hjá Landspítalanum vegna sameiningar allrar rannsóknastarfsemi spítalans á einn stað. Þá eru samlegðaráhrif við Háskóla Íslands mikil, en skólinn mun reisa glæsilegt nýtt hús heilbrigðisvísindasviðs sem verður tengt rannsóknahúsinu. Samkvæmt okkar áætlunum mun nýtt rannsóknahús verða tekið í notkun á árinu 2024 í samræmi við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar,“ segir Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH, í tilkynningunni.

Opnun tilboða verður hjá Ríkiskaupum þann 11. júní næstkomandi.

Rannsóknahúsið er einn hluti af Hringbrautarverkefninu og er stærð hússins 15.550 m².

Öll rannsóknarstarfsemi á einum stað

Í rannsóknahúsi Nýs Landspítala mun öll rannsóknastarfsemi spítalans sameinast á einn stað. Starfseiningar í rannsóknahúsi verða meinafræði, rannsóknakjarni, klínísk lífefnafræði og blóðmeinafræði, frumuræktunarkjarni, frumumeðhöndlun, erfða – og sameindalæknisfræði, ónæmisfræði, rannsóknastofa í gigtsjúkdómum og sýkla og veirufræði.  Einnig mun starfsemi Blóðbanka flytjast í nýtt rannsóknahús.

Sjálfvirk flutningskerfi og þyrlupallur  

Rannsóknahúsið tengist meðferðarkjarna og öðrum byggingum spítalans með sérstökum sjálfvirkum flutningskerfum, einnig með tengigöngum og tengibrúm. Á húsinu verður einnig þyrlupallur sem tengdur er meðferðarkjarnanum.

mbl.is