Hundruð tollafgreiðslubeiðna töpuðust

Öll tölvukerfi Póstsins eru komin í lag.
Öll tölvukerfi Póstsins eru komin í lag. mbl.is/Eggert

Um 300 til 400 beiðnir sem viðskiptavinir höfðu sent vegna tollafgreiðslu eyðilögðust í tölvuárásinni sem var gerð á Póstinn á sunnudagskvöld.

Fyrir vikið þurfa viðskiptavinirnir að senda aðra slíka beiðni á Póstinn. Enginn leki varð á gögnum í árásinni, að sögn Brynjars Smára Rúnarssonar, forstöðumanns markaðsdeildar hjá Póstinum.

Hann segir að um vírusárás hafi verið að ræða og tilgangurinn hafi verið að dulkóða skrár en ekki taka skjöl. Árásin var stöðvuð fljótt en frameftir degi í gær voru tölvukerfin hæg. 

Öll tölvukerfi Póstsins eru núna komin aftur upp og byrjuð að starfa af fullri getu eftir tölvuárásina.

„Það gengur allt mjög vel núna. Það fór mun betur en á horfðist í fyrstu,“ segir Brynjar en kerfin voru komin á fulla ferð seinnipartinn í gær.

Hann segir að í heildina séð hafi mjög lítið af gögnum tapast í árásinni og lítið hlutfall þeirra hafi verið frá viðskiptavinum.

„Að öðru leyti erum við að gera það sem við getum til að draga úr hættunni á að þetta gerist aftur. Við ætlum að finna það út með okkar þjónustuaðilum hvernig svona gat gerst. Auðvitað er þetta hvimleitt,“ segir hann.

Ekki er vitað sem stendur hvort árásin hafi komið frá útlöndum eða hvort hún hafi verið íslensk.

Tölvuárásin er sú fyrsta sem nær í gegn hjá Póstinum og hefur áhrif á kerfi fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert