Styðja þjónustufulltrúa heilshugar

Sviðs- og tæknifólk sem starfar í Hörpu hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem stuðningi er lýst við þá þjónustufulltrúa sem sögðu upp störfum í gær.

„Sviðs- og tæknifólk í Hörpu styður heilshugar þjónustufulltrúana sem sagt hafa upp störfum. Það er mikið óréttlæti að þeir sem halda upp starfsemi Hörpu og er í raun hjarta hússins skuli líða svona framkomu,“ segir i yfirlýsingunni.

Gerviverktakar sinnt sviðs- og tæknimálum

Fram kemur að svokallaðir gerviverktakar hafi sinnt ýmsum sviðs- og tæknimálum í Hörpu síðan tónlistar- og ráðstefnuhúsið opnaði. Þessir verktakar vinni í raun 100% vinnu og í mörgum tilfellum talsvert umfram það.

„Verktakarnir hafa ekki sömu réttindi og t.d. lausráðið fólk og dæmi eru um að fólk hafi verið að vinna 20+ klst og jafnvel marga daga í röð, á jafnaðarkaupi. Þetta þýðir að sjálfsögðu að verið er að brjóta á almennum hvíldartíma sem allir launþegar eiga rétt á,“ segir í yfirlýsingunni.

„En það er ekki svo gott að þeir verktakar sem lenda í svona hörku hafi val um það að stytta tímann sinn eða hætta þegar komið er yfir 16 tímana því þá er möguleiki á því að þeir verktakar fái ekki boð um fleiri verkefni.“

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Frá opnun Hörpu hafa svokallaðir ‘gerviverktakar’ alltaf verið að sinna ýmsum sviðs- og tæknimálum í húsinu. Verktakar sem í raun eru að vinna 100% vinnu og í mörgum tilfellum talsvert umfram þá prósentu. Verktakarnir hafa ekki sömu réttindi og t.d. lausráðið fólk og dæmi eru um að fólk hafi verið að vinna 20+ klst og jafnvel marga daga í röð, á jafnaðarkaupi. Þetta þýðir að sjálfsögðu að verið er að brjóta á almennum hvíldartíma sem allir launþegar eiga rétt á.

En það er ekki svo gott að þeir verktakar sem lenda í svona hörku hafi val um það að stytta tímann sinn eða hætta þegar komið er yfir 16 tímana því þá er möguleiki á því að þeir verktakar fái ekki boð um fleiri verkefni. Sama gildir um taxtana sem verktakar semja um, eftir ár eða þá eftir að hafa öðlast talsvert meiri reynslu og þekkingu á því sviði sem þeir sinna hefur reynst mörgum erfitt að hækka taxtana, undir því yfirskyni að fá færri boð um verk eða þá engin.

Einnig er dæmi um að verktakar sem unnið hafa í Hörpu samfellt í marga mánuði hafi verið á lægri taxta en verktakar sem séu nýbyrjaðir þrátt fyrir sama bakgrunn í námi og svipaðan aldur.

Vert er að taka fram að allir verktakarnir sem um ræðir eru ýmist lærðir eða sjálflærðir. Þannig engin greinarmunur er í raun gerður á þeim sem eru háskólamenntaðir eða annað. Allir eru sett undir sama hatt. Auk þess matur í mötuneyti Hörpu er talsvert dýrari fyrir verktaka eða um 2.250kr um helgar fyrir kvöldmat en um tæpar 700kr fyrir fastráðið starfsfólk. Þetta væri skiljanlegt ef verktakarnir væru að koma í eitt og eitt verkefni en raunin er margir verktakarnir eru að vinna alla daga eins og ef um fastráðið starfsfólk væri að ræða.

Veturinn 2016 fengu loksins nokkrir verktakar lausráðningasamning sem vel var tekið í, en barist var um að geta fengið þær stöður í um ár áður en það loks hafðist. En um svipað leyti og þjónustufulltrúum var gert að taka á sig launaskerðingu var öllum lausráðnum sagt upp en fengu boð um að halda áfram störfum sem áður í verktakavinnu. Ekki allir vildu þiggja það, enda hentar það ekki öllum að standa í slíkri starfsemi.

Sviðs- og tæknifólk í Hörpu styður heilshugar þjónustufulltrúana sem sagt hafa upp störfum. Það er mikið óréttlæti að þeir sem halda uppi starfsemi Hörpu og er í raun hjarta hússins skuli líða svona framkomu.“

Uppfært 9. maí kl. 16.40

Athugasemd frá yfirmanni tækni- og sviðsmanna Hörpu:

Hrannar Hafsteinsson, yfirmaður tækni- og sviðsmanna Hörpu, segir að yfirlýsing sem send var út til fjölmiðla í gær fyrir hönd sviðs- og tæknimanna í Hörpu hafi ekki verið send með vitneskju hans eða annarra starfsmanna deildarinnar.

Hann segir að margir starfsmenn Hörpu hafi komið að máli við sig og lýst yfir óánægju sinni með að yfirlýsingin hafi verið send út í þeirra nafni án þess að haft hafi verið samband við þá.

Yfirlýsingin var send af fyrrverandi starfsmanni Hörpu og standa starfsmenn tæknideildar Hörpu því ekki að henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert