Vill að laun hennar verði lækkuð

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, hefur óskað eftir því að laun hennar verði lækkuð afturvirkt frá 1. janúar 2018. Þessu greinir hún frá á Facebook-síðu sinni í dag. Launahækkun sem henni var veitt af stjórn Hörpu hefur verið harðlega gagnrýnd og meðal annars sögðu nær allir þjónustufulltrúar sem starfa í tónlistarhúsinu upp störfum í gær.

„Ég óskaði eftir því við formann stjórnar Hörpu í dag að laun mín yrðu lækkuð afturvirkt frá 1. janúar 2018 og yrðu til samræmis við úrskurð kjararáðs frá því snemma árs 2017. Kjaramál mín hafa truflað mjög mikilvægt verkefni sem nú er í vinnslu er varðar rekstur hússins. Friður um Hörpu er ofar öllu,“ segir Svanhildur í færslunni á Facebook.

Sviðs- og tæknifólk sem starfar í Hörpu lýsti í dag yfir stuðningi við gagnrýni þjónustufulltrúanna og stéttarfélagið VR tilkynnti einnig í dag að það hefði hætt viðskiptum við Hörpu þar til fundin yrði lausn á málum þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert