Andrés Önd fjármagnaði Laxness

Auður Jónsdóttir skoðar Andrés önd með syni sínum, Leifi Ottó …
Auður Jónsdóttir skoðar Andrés önd með syni sínum, Leifi Ottó Þórarinssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þræðir Andrésar Andar liggja dýpra í íslenskri menningu en við gerum okkur grein fyrir. Auður Jónsdóttir rithöfundur kynntist Andrési Önd ung að árum og endurnýjaði kynnin við hann í Kaupmannahöfn þegar hún var fullorðin. Hún komst í gær að óvæntum tengslum Andrésar Andar við afa hennar, Halldór Laxness. Auður heldur erindi í dag á málþingi til heiðurs Andrési og félögum.

„Ég á ömmubróður mínum, Ara Viðari Jónssyni, það að þakka að ég kynntist snemma Andrési Önd. Ari bjó með ömmu minni og mér fannst sjúklega gaman að koma þangað í heimsókn, því Ari safnaði Andrésblöðum. Hann átti þau á dönsku og þau voru innbundin, í sérstökum Andrésarmöppum,“ segir Auður Jónsdóttir rithöfundur, en hún er ein þeirra sem halda erindi í dag á málþingi um Andrés Önd. Auður segir safn Ara frænda hafa verið veglegt, stór mahonískápur á heimili hans hafi verið fullur af möppum sem geymdu Andrésblöðin hans. „Þetta var allt tölusett í röð hjá honum og vel skipulegt. Fyrir framan þennan skáp var djúpur leðurstóll á hjólum, þar sem ég sat löngum stundum og sneri mér í hringi á meðan ég drakk í mig Andrésblöðin. Þetta voru miklar sælustundir,“ segir Auður og rifjar upp hvað vakti athygli hennar. „Í þessum blöðum voru mjög skrýtnar auglýsingar, til dæmis um Jolly Cola, og myndir af dönskum börnum í sumarfríi sem voru að fara í tívolí. Þetta var allt mjög framandi fyrir mig, íslenska barnið,“ segir Auður og bætir við að hún hafi verið mjög ung þegar hún byrjaði að njóta Andrésblaðanna. „Ég átti þessar stundir alveg frá því ég man eftir mér.“ Þar sem blöðin voru öll á dönsku og Auður sem lítið barn ólæs á þá tungu, þá segist hún hafa búið sjálf til söguþráðinn með því að skoða myndirnar. „Seinna byrjaði maður að reyna að stauta sig í gegnum dönskuna, en ég skildi auðvitað GISP! og aðrar upphrópanir.“

Auður segist hafa verið orðin stálpuð þegar Andrésblöðin fóru að koma út á íslensku. „Þá hélt Ari áfram að kaupa blöðin og ég naut góðs af því, las þau á íslensku hjá honum. Þegar ég var um þrítugt þá bankaði Ari upp á hjá mér og sagði mér að koma út og hjálpa honum að bera nokkra kassa úr bílnum inn til mín. Þar var þá komið allt Andrésblaðasafnið hans. Hann gaf mér það, og líka allar Tinnabækurnar. Mér þótti vænt um það,“ segir Auður sem flutti safnið með sér til Berlínar þegar hún flutti þangað búferlum fyrir nokkrum árum. „Þetta eru víðförul Andrésblöð, nú er þetta forláta safn í gámi í skipi einhversstaðar á Atlantshafinu, á leið aftur til Íslands, því ég er flutt heim.“

Hann er svo frekur og vitlaus

Auðir segist vera þakklát fyrir að Andrésblöðin hafi orðið til þess að hún á sínum tíma þjösnaði sér í gegnum dönskuna sem talblöðrurnar geymdu. „Þetta snýst um að þora að reyna að lesa eitthvað sem maður skilur ekki. Þegar ég svo flutti um þrítugt til Kaupmannahafnar þá gerði ég þetta sama með dagblöðin þar, ég þorði að reyna að lesa og skilja. Að lesa danska fjölmiðla opnaði nýjan heim fyrir mér, rétt eins og Andrés Önd opnaði heima fyrir mér barninu á sínum tíma. Dönsku fjölmiðlarnir voru í þeim skilningi mín fullorðins Andrésblöð.“

Auður bjó í þrjú ár í Kaupmannahöfn og segir fyrrverandi mann sinn sem er mikill teiknimyndasöguáhugamaður og ólst upp í Danmörku, hafa ráðlagt sér að lesa teiknimyndasögur á dönsku þegar þau voru nýflutt til Danmerkur.

„Til að ég næði tökum á talmáli hins daglega lífs, myndasögur henta vel til þess, sem og slúðurblöð. Ég gerði samkomulag við mann sem var með fornbókabúð um að ég fengi að vinna hjá honum endurgjaldslaust gegn því að lesa teiknimyndasögur og Andrésblöð. Þetta var því einskonar endurkoma fyrir mig að myndasögulestri. Ég man að forsætisráðherra Danmerkur á þessum tíma hét Anders Fogh, og ég komst ekki hjá því að tengja hann alltaf við Andrés Önd,“ segir Auður og hlær. „Sama átti við um danska prinsinn Jóakim, það vakti hugrenningatengsl við Jóakim aðalönd.“

Þegar Auður er spurð að því hver í persónugalleríi Andrésblaðanna hafi höfðað mest til hennar sem barns, segir hún að Mikki mús og Fedtmule hafi verið þeir sem hún var langhrifnust af. „Mér fannst þeir viðkunnanlegri persónur en Andrés sjálfur, hann er svo frekur og vitlaus. En Rip, Rap og Rup voru auðvitað líka mínir menn, frábærir grænjaxlar. Aftur á móti mundi ég ekki nenna að vera lengi á eyðieyju í lifanda lífi með Jóakim aðalönd eða Hábeini heppna.“

Líka jólasveinninn og grýla

Auður segir að Andrés Önd og allt hans slekti hafi örugglega haft mótandi áhrif á hana sem persónu. „Rétt eins og allt sem verður á vegi manns í æsku, líka jólasveinninn og Grýla, mér fannst þetta allt jafn raunverulegt og hundurinn minn. Í barnshuganum er allt bráðlifandi. Og Andrés fór víða með mér, ég var oft með Andrésblöðin hangandi aftan í mér, rétt eins og krakkar gera, þau dröslast með dót með sér. Stjúpdóttir mín var alltaf með Andrésblöð í töskunni sinni þegar hún var lítil, en hún var svo heppin að mamma hennar vann á bókasafni og hún var því alltaf að stela Andrésblöðum.“

Sonur Auðar er sjö ára og hún segir hann vera með nývaknaðan áhuga á Andrési. „Hann fékk syrpu um daginn og fær auðvitað að sökkva sér í blöðin mín og Tinnabækurnar þegar safnið mitt kemur frá Berlín. Ég geri ráð fyrir að hann eigi auðvelt með að klóra sig fram úr dönskunni, því hann kann þýsku, en mér hefur alltaf fundist danska liggja á milli íslensku og þýsku. Teiknimyndasögur almennt eru tilvaldar til að auka lestrarkunnáttu, því krakkar verða svo spenntir að vita hvað stendur í talblöðrunum við myndirnar, hvað persónurnar eru að segja. Þetta er líka svo mátulega lítið sem stendur í hverri talblöðru, svo þau ráða vel við það.“

Öndin styrkti Laxnessútgáfu

Auður hitti í gærmorgun Kjartan Örn Ólafsson, son Ólafs Ragnarssonar sem stofnaði bókaforlagið Vöku Helgafell, og komst þá að óvæntum staðreyndum um sinn gamla vin Andrés Önd. Að þræðir hans liggja dýpra í íslenskri menningu en við gerum okkur grein fyrir. „Danir reyndu að gefa út Andrésblöð á íslensku, og Ekman útgáfan danska gerði það í þrjú ár. En þýðingin var svo slæm að salan var fyrir neðan allar hellur. Ólafur var á þessum tíma að koma unga útgáfufyrirtækinu Vöku Helgafelli á laggirnar og þegar hann sér þessar lélegu þýðingar finnst honum það ekki Íslendingum bjóðandi. Svo hann hendist í einum grænum hvelli til Danmerkur á spariskónum, á fund hjá Ekman útgáfunni. Þar landaði hann útgáfurétti að Andrési Önd á íslensku, og fékk afbragðs þýðanda í verkið, Þránd Thoroddsen. Vaka Helgafell var ungt fyrirtæki á þessum tíma sem fékk enga fyrirgreiðslu og var að ströggla. En Andrés Önd varð lífssprautan fyrir Vöku Helgafell, því blöðin seldust sem heitar lummur þegar þau koma í þessum flottu þýðingum Þrándar. Fyrir vikið hafði fyrirtækið burði til að gefa annað út, en Helgafell var með útgáfuréttinn á öllum bókunum hans afa, Halldórs Laxness. Þannig má segja að Andrés Önd hafi styrkt útgáfuna á bókum Laxness, og haft áhrif á menningarlíf okkar Íslendinga. Við Íslendingar fengum aðgang að Laxness í hinum fjölbreyttustu útgáfum Vöku Helgafells. Þessi útgáfa á Laxnessverkum blómstraði með öðrum orðum fyrir tilstuðlan Andrésar Andar. Andrés Önd fjármagnaði Laxness, hversu flott er það?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert