Mikilvæg völd tekin út fyrir sviga

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjármálaráðherrar þeirra þriggja aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) sem aðild eiga að EES-samningnum, Noregs, Íslands og Liechtenstein, hafa mótmælt áformum Evrópusambandsins um að gera breytingar á fyrirkomulagi ákvarðanatöku á vettvangi yfirþjóðlegs fjármálaeftirlits sambandsins sem ríkin hafa gengist undir.

Vísað er í bréf þessa efnis frá ráðherrunum á norska fréttavefnum Abcnyheter.no þar sem óskað sé eftir því að fallið verði frá áformum Evrópusambandsins um að færa mikilvægt ákvarðanavald frá eftirlitsstjórn fjármálaeftirlitsins, sem EFTA/EES-ríkin eiga aðkomu að án atkvæðaréttar, til nýrrar framkvæmdastjórnar eftirlitsins sem ríkin eigi enga aðkomu að.

Minnt er á það í bréfinu að fundin hafi verið lausn á aðild EFTA/EES-ríkjanna að fjármálaeftirliti Evrópusambandsins á sínum tíma byggð á tveggja stoða kerfi EES-samningsins eftir flóknar viðræður. Kallað er eftir því að áfram verði byggt á þeirri lausn sem fundin hafi verið og gert áfram ráð fyrir aðkomu EFTA/EES-ríkjanna að eftirlitinu.

Evrópusambandið fór upphaflega fram á að EFTA/EES-ríkin færu beint undir fjármálaeftirlit sambandsins en samið var um að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sæi um eftirlitið gagnvart ríkjunum þremur. Eins og segir í bréfinu tekur ESA bindandi ákvarðanir gagnvart EFTA/EES-ríkjunum en á grundvelli draga sem stofnunin fær frá fjármálaeftirliti Evrópusambandsins.

Þegar aðild Íslands að fjármálaeftirliti Evrópusambandsins var samþykkt á Alþingi haustið 2016 lá meðal annars fyrir álit lagaprófessoranna Stefáns Más Stefánssonar og Bjargar Thorarensen um að ákvarðanir gagnvart EFTA/EES-ríkjunum yrðu í raun teknar af fjármálaeftirliti Evrópusambandsins en síðan teknar til afgreiðslu hjá ESA.

Fram kemur ennfremur í bréfi ráðherranna að erfitt sé að sjá hvernig hægt verði að viðhalda jafnvægi á milli EFTA- og ESB-stoðarinnar nema EFTA/EES-ríkin hafi aðkomu að fyrirhugaðri framkvæmdastjórn fjármálaeftirlits sambandsins. Einnig er kallað eftir því að útvíkkun á beinu eftirliti fjármálaeftirlitsins verði ekki umfram það sem innlendar stofnanir geti sinnt.

Þá er sömuleiðis áréttað í bréfinu að þegar hafi verið komið á kerfi miðlægs eftirlits og ákvarðanatöku innan tveggja stoða kerfisins. Fyrirætlanir um frekara framsal valdheimilda frá EFTA/EES-ríkjunum til ESA á sviði fjármálaeftirlits kunni að leiða til flókinna stjórnskipulegra og stjórnmálalegra vandamála sem erfitt gæti reynst að finna lausnir á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert