Sektaðir fyrir utanvegaakstur í Dyrhólaey

Á myndinni má sjá ummerki eftir utanvegaaksturinn.
Á myndinni má sjá ummerki eftir utanvegaaksturinn. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Landvörður Umhverfisstofnunar lét lögreglu vita af utanvegaakstri í Dyrhólaey í síðustu viku sem leiddi til þess að tveir öku­menn fengu sam­tals á þriðja hundrað þúsund krón­ur í sekt.

Hákon Ásgeirsson, teymisstjóri Umhverfisstofnunar á Suðurlandi, segir í tilkynningu frá UST, að Heiðrún Svala Aronsdóttir, landvörður Umhverfisstofnunar, hafi verið við eftirlit á Háey en hún sá þá tvo bíla við girðinguna sem loki leið út á Tóna. Þá höfðu ferðalangarnir ekið um 100 metra út af vegi sem liggur upp á Háey.

Hákon segir ennfremur í tilkynningunni, að ferðalangarnir hafi borið því við að þeir hefðu séð bílför í grónu mólendi við veginn og talið að það væri leyfilegt að fara þar út af veginum og aka sem leið liggur eftir vegleysu áleiðis út að Tónni. Þeir hafi talið sig í rétti.

Þegar þangað var komið hafi fólkið klofað yfir girðinguna og virt að vettugi skilti sem tilgreini að svæðið innan girðingar sé lokað og öll umferð stranglega bönnuð. Landvörður hafi talið þetta vera það umfangsmikið brot að kalla þyrfti til lögreglu sem kom fljótt á staðinn og tók af þeim skýrslu og  sektaði ferðamennina.

Bílarnir mörkuðu hjólför í mólendi og mela á þessum 100 metra kafla og ollu því talsverðum skemmdum að sögn Hákonar.  Mun taka tíma fyrir jarðveginn að jafna sig. Að sögn Hákons hefur dregið  verulega úr umferð í Dyrhólaey síðan stýring um svæðið var aukin og landvarsla efld til muna, en reglulega verði undantekningar frá því að gestir virði lög og reglur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert