Svefn undirstaða vellíðanar barna

Reglulegur svefn barna og unglinga er mikilvægt atriði þegar kemur …
Reglulegur svefn barna og unglinga er mikilvægt atriði þegar kemur að vellíðan þeirra. mbl.is/Ásdís

Svefnleysi veldur því að börn og ungmenni eru líklegri til þess að sækja í óholla næringu og sýna einkenni ofvirkni. Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi í Háskóla Íslands í dag um svefn og næringu barna og ungmenna. Einnig kom fram að orkudrykkir með áhættusamt magn koffíns, steinefna og vítamína væru hugsanlega aðgengilegir börnum.

Erna Sif Arnardóttir, nýdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands, fjallaði um mikilvægi svefns barna og ungmenna og nefndi að djúpsvefn væri sérstaklega mikilvægur. Svefn er ekki óvirkni, heldur virkt ástand þar sem líkaminn allur endurnýjast og endurbyggja.

Öll aldursskeið eiga mismunandi ráðlagðan svefntíma. Til að mynda eiga börn á aldrinum 3-5 ára að sofa um 10-15 tíma á sólarhring og unglingar um 8-10 tíma. Erna sagði sérstakt áhyggjuefni hversu lítið íslensk ungmenni sofa, en rannsóknir hafa sýnt að margir 10. bekkingar sofa aðeins 6 klukkutíma á nóttu.

Fundurinn var vel sóttur.
Fundurinn var vel sóttur. mbl.is/Gunnlaugur

Svefnskortur veldur óhollustu og skapsveiflum

Of lítill svefn getur valdið ýmsum breytingum í hegðun barna, andstætt fullorðnum sem eiga það til að dotta þegar þeir eru þreyttir. Illa sofin börn verða oft pirruð, sýna miklar skapsveiflur, fá verri einbeitingu og geta sýnt ofvirknieinkenni. 

„Við getum ímyndað okkur hvernig það barn verður sem mætir þreytt í skóla,“ sagði Erna og bætti við að mikilvægast væri að regla væri á svefntíma, jafnvel um helgar.

Náttúrulegur svefntími unglinga seinkar á aldursskeiði þeirra. Erna benti þó á að unglingar kæmu sér oft í slæman vítahring þar sem þeir fara seint að sofa og vegna þreytu vakna seint um helgar. Þegar á sunnudag er komið verður síðan erfitt að fara snemma í háttinn þar sem er búið að sofa fram á hádegi, sem veldur því að unglingurinn vaknar þreyttur að nýju á mánudagsmorgni.

Einnig kom fram að síðdegislúrar eru ekki til þess fallnir að bæta svefn ásamt því að hreyfing að kvöldi geti truflað eðlilegan nætursvefn.

Erna sagði að það gæti verið svo að samhengi sé milli gríðarlega stuttum svefntíma íslenskra unglinga og óútskýrðu brottfalli úr framhaldsskólum.

Snjalltæki trufla og klukkan vitlaus

Melatónín er hormón í líkamanum sem eykst í myrkri og skapar þreytu. Birta minnkar hinsvegar magn hormónsins sem er náttúruleg leið líkamans til að vakna. birta frá snjallsímum og spjaldtölvum veldur því að melatónín magnið í líkamanum minnkar og gera tækin mannfólkinu, börnum sérstaklega, því erfiðara fyrir að fá góðan svefn.

Samkvæmt Ernu hjálpar ekki heldur í sambandi við náttúrulegt birtustig að klukkan á Íslandi sé rangt stillt. Hún sagði Ísland 1-1,5 klukkustund of snemma sem þýðir að Íslendingar missa af því að hafa mikilvæga birtu á morgnana. Jafnframt fara Íslendingar að meðaltali klukkustund seinna að sofa en nágrannaþjóðir.

Erna sagði mikilvægt að fyrir svefninn sé rólegt umhverfi fyrir börnin; engin snjalltæki, lesa eða spila, fara í heitt bað og svo framvegis. Þá þarf svefnumhverfið að vera gott og mælir hún með svölu herbergi þar sem er dimmt og hljótt, ekki síst þægilegt rúm.

Vegna skammdegisins getur verið mikilvægt að hafa skammdegisljós til þess að koma reglu á svefntíma og bjarga morgnunum.

Svefn og koffín

Börn og unglingar sækja oft í mikil sætindi og svefnleysi veldur því að líkaminn leitar í orku sem hann getur fengið úr kolvetni. Fram kom í máli Ingibjargar Gunnarsdóttur, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, að rannsóknir sýna að vísbendingar séu um að það er samhengi milli svefnleysis og að sækja í óholla kolvetnisríka næringu. Hún sagði mikilvægt að kenna börnum og ungmönnum að elda sér mat í stað þess að fá sér snarl.

Þá gerði Ingibjörg að sérstöku umfjöllunarefni sínu koffíndrykki, þar sem neysla þeirra meðal ungmenna hefur farið vaxandi og ofneysla koffíns geta orsakað eitrunareinkennum og haft áhrif á hjartslátt. Enn fremur benti hún á að koffín sem neytt er eftir hádegi geti haft áhrif á nætursvefn þar sem það eyðist hægt.

Talsvert úrval er af orkudrykkjum í verslunum og hafa nýjir …
Talsvert úrval er af orkudrykkjum í verslunum og hafa nýjir komið á markað sem bannaðir eru innan 18 ára. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ingibjörg sagði að 2005 hafi sterkustu koffíndrykkirnir verið með um 161-176 milligröm koffíni á líter. Nú hafa hinsvegar verið leyfðir drykkir með allt að 550 milligrömmum á líter. Þá sagði hún sérstakt áhyggjuefni að umbúðir drykkja frá sama framleiðanda séu nánast eins á drykkjum með miklu koffínmagni og þeim með minna magn.

Sumir koffín drykkja eru með svo mikið magn koffíns að þeir eru bannaðir innan 18 ára, en Ingibjörg spurði hvernig því er framfylgt ef umbúðirnar séu eins.

Skyntruflanir og doði

Margir koffíndrykkir innihalda einnig mikið magn vítamína, oft tugþúsundfalt ráðlagðan dagsskammt og að efrimörkum hættulausrar neyslu. Samkvæmt Ingibjörgu eru drykkir á markaði sem geta valdið skyntruflunum og doða, sérstaklega hjá börnum sem þurfa mun minna magn.

Sem dæmi var dregin fram 250 ml dós sem inniheldur 20 milligröm af B6 vítamíni. Hámarksdagskammtur fullorðinna er 25 milligrömm. Einnig eru dæmi um drykki með 10 þúsundfalt nauðsynlegt magn af B12 vítamíni.

Ingibjörg lýsti áhyggjum sínum af því að nýtt ofneyslutímabil væri að hefjast og að ekki væri hægt að sjá skýrt hverjar afleiðingarnar verða fyrr en eftir 20-30 ár.

Fundurinn í dag var settur af rektor Háskóla Íslands, Jóni Atla Benediktssyni, í Vigdísarhúsi og er hann fyrstur í fundarröðinni Best fyrir börnin á vegum háskólans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert