Ummæli Þórðar gerðu útslagið

Harpa.
Harpa. mbl.is/Júlíus

Alls hafa 22 þjónustufulltrúar í Hörpu sent inn uppsagnarbréf vegna óánægju með kjör sín. Fimm til viðbótar eiga eftir að gera upp við sig hvort þeir halda áfram eða ekki.

Þetta segir einn af þjónustufulltrúunum í samtali við mbl.is.

Hann segir það hafa verið seint í rassinn gripið hjá forstjóra Hörpu að segjast vilja láta lækka launin sín, auk þess sem ummæli Þórðar Sverrissonar, stjórnarformanns Hörpu, hafi orðið til þess að sá möguleiki að draga uppsagnirnar til baka hafi endanlega fallið um sjálfan sig.

Gerir sér ekki grein fyrir vandanum

„Hann er ekki að gera sér neina grein fyrir vandanum og hversu dýrt það er að við séum öll að hætta og að öll reynslan og þekkingin þurrkist út,“ segir þjónustufulltrúinn, sem vill ekki láta nafns síns getið.

Hann segir að það fyrsta sem fólk læri í stjórnun sé hversu mikilvægt er að halda mannauðnum góðum vegna þess að það sé mjög dýrt að reka og ráða starfsfólk. Ábyrgðarlaust sé að fara þessa leið sem hefur verið farin.

Svart á hvítu 

Þjónustufulltrúinn bætir við að allir sjái í gegnum ummæli Þórðar er kenndi blaðamönnum um og sagði að falskar fréttir hafi verið sagðar af því að forstjóri Hörpu hafi hækkað í launum um 20%.

„Hann er eiginlega að grafa sína eigin holu með því að koma svona fram. Gamli forstjórinn var með X-laun og Svanhildur með Y-laun og þau voru hærri. Þetta er bara svart á hvítu.“

Aðspurður segir þjónustufulltrúinn að margir þeirra sem sögðu upp séu einnig með aðra vinnu. Bætir hann við að ekki verði erfitt að fá annað starf, miðað við stöðuna á vinnumarkaðnum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert