UNICEF hefur neyðarsöfnun fyrir Jemen

Mynd söfnunarinnar
Mynd söfnunarinnar Ljósmynd/UNICEF

UNICEF á Íslandi mun í kvöld hefja neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen. Söfnunin hefst með stuttum viðburði á sýningu, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, þar sem sýnt verður myndband sem byggir á raunverulegum sögum barna frá Jemen sem þýddar hafa verið yfir á íslensku og talsettar.

Að sögn UNICEF á Íslandi verður um óvenjulega sýningu að ræða og óhefðbundna upplifun fyrir þáttakendur. Sýningin verður opin milli kl. 17 og 20.  

Yfirskrift neyðarátaksins er „Má ég segja þér soldið?“, sem er vísun í algengt talmál barna. UNICEF vilja með átakinu beina sjónum almennings að neyð barna í Jemen, neyð sem hefur farið framhjá mörgum að þeirra mati.

UNICEF bólusetur börn gegn mænusótt
UNICEF bólusetur börn gegn mænusótt Ljósmynd/UNICEF

„Börn deyja á 10 mínútna fresti af sjúkdómum sem hægt er að koma í veg fyrir“, segir Steinunn Jakobsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi. Ástæðan fyrir neyðarátakinu er það hörmulega ástand sem ríkir í Jemen. Sem dæmi um ástandið í Jemen, kemur fram í tölfræði frá UNICEF að rúmlega 11 milljónir barna þurfi á nauðsynlegri hjálp að halda, það sé nánast hvert einasta barn í landinu. 2 milljónir barna þjáist vegna vannæringar og þar af séu 400 þúsund börn í lífshættu vegna alvarlegrar bráðavannæringar. Allt að 16 milljónir íbúa hafi ekki aðgang að drykkjarhæfu vatni né hreinlætisaðstöðu. Þúsundir hafi slasast eða látist í sprengingum og árásum á skóla, íbúðarhverfi og sjúkrahús.

Ahmed, 12 ára. UNICEF dreifir skólagögnum
Ahmed, 12 ára. UNICEF dreifir skólagögnum Ljósmynd/UNICEF

Sýningin fer þannig fram að myndbandið, sem sýnir börn segja raunverulegar sögur frá Jemen, verður sýnt í lokuðu rými á 10-15 mínútna fresti. Myndbandið er um 10 mínútur að lengd. Í opnu rými verður svo sýnt frá aðstæðum í Jemen og hjálparstarfi UNICEF á Íslandi þar á myndrænan hátt. Starfsfólk UNICEF verður á svæðinu og mun veita frekari fræðslu og leiðbeiningar fyrir þá sem hafa áhuga á að leggja málefninu lið.

Samkvæmt Steinunni hefur UNICEF hefur verið á vettvangi í Jemen í fjölda ára og sinnir þar umfangsmiklum neyðaraðgerðum til dæmis með því að útvega hreint drykkjarvatn og bjóða upp á bólusetningar.

Hægt er að nálgast Facebook síðu viðburðarins.

Ef fólk kemst ekki á viðburðinn en vill styrkja söfnunina þá er hægt að senda sms-ið „JEMEN“ í símanúmerið 1900. Með því er hægt að styrkja söfnunina um 1900 krónur sem dugir að sjá barni fyrir tveggja vikna meðferð við vannæringu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert