Vilji til að taka harðar á óskráðri gistingu

Oddvitar sjö flokka af 16 í borginni tóku þátt í …
Oddvitar sjö flokka af 16 í borginni tóku þátt í fundinum í Gamla bíó í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svört atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu var til umræðu í leiðtogaumræðum framboða í Reykjavík í Gamla bíó í morgun. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar spurði oddvitana sjö sem boðaðir voru til fundarins að því hvernig þeir sæu fyrir sér að hægt væri að sporna við ólöglegri útleigu íbúða, til dæmis á AirBnB.

Borgarstjóri og nokkrir aðrir oddvitanna voru á því að borgin þyrfti að auka sjálfstætt eftirlit með ólöglegri gististarfsemi eða þá að eftirlit ríkisvaldsins með heimagistingu yrði eflt. Það væri nauðsynlegt, ekki síst í ljósi þess að íbúðir hefðu undanfarin ár verið að færast af langtímaleigumarkaði og yfir í útleigu til ferðamanna, sem í mörgum tilfellum væri ekki gefin upp til skatts.

Fram kom í máli oddvita meirihlutaflokkanna að borgin væri að vinna að því að ná tvíhliða samningnum við AirBnB um að fá upplýsingar og gögn um leigusala í borginni eins og aðrar borgir hafa gert, til að geta fylgst betur með.

Líf Magneudóttir oddviti Vinstri grænna nefndi þó að þá væri hætta á því að leigusalar myndu bara færa íbúðir sínar á annan auglýsingavettvang en AirBnB og halda áfram útleigu til ferðamanna sem væri ekki samræmi við lög og reglur.

„Auðvitað er eftirlit mikilvægt og löggjöf og reglugerðir en þetta er líka framboð og eftirspurn,“ sagði Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins. „Borgin hefur verið svolítið sofandi með framboð á íbúðarhúsnæði og þegar AirBnB verður svona sterkt og ferðamannaiðnaðurinn vex kemur þrýstingur á heimilin. Við sjáum það að 9% fækkun íbúa varð í miðborginni á stuttum tíma og það er mjög alvarlegt mál,“ segir Eyþór.

Hann segir að nægilegt framboð þurfi að vera á gistirými fyrir ferðamenn og sömuleiðis nóg að íbúðum fyrir íbúa, annars verði alltaf hætta á svartamarkaðsstarfsemi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og oddviti Samfylkingar sagði að eftirlit sýslumannsembættisins með heimagistingu væri ekki nægjanlegt og borgaryfirvöld hefðu haft áhyggjur af því.

„Eftirlitið með þessu er á hendi sýslumanns og við höfum haft áhyggjur af því að það væri of veikt og höfum verið mjög til í að fylgjast því fastar eftir,“ sagði Dagur.

Horfa má á fundinn í heild sinni á vef Samtaka atvinnulífsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert