Fundað með Öræfingum vegna sprungu

Svínafellsjökull og Svínafellsheiði í Öræfum.
Svínafellsjökull og Svínafellsheiði í Öræfum. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Veðurstofan, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Sveitarfélagið Hornafjörður héldu upplýsingafund fyrir íbúa í Öræfum síðastliðið þriðjudagskvöld, þar sem íbúum voru veittar upplýsingar um stöðu mála í Öræfajökli og um sprungu sem fannst fyrr í vor í vesturhlið Svínafellsheiðar og talið er að tengist sprungu sem fannst árið 2014.

Fjallað var um sprunguna og möguleika á berghlaupi á vef Veðurstofunnar í gær, en ef sprungurnar eru tengdar mun ekki vera hægt að útiloka að stórt stykki hlíðarinnar, um kílómetri að flatarmáli, gæti hlaupið fram á jökulinn í einu lagi, en stykkið gæti einnig hrunið í smærri hlutum.

Sigrún Sigurgeirsdóttir, íbúi í Öræfum og starfsmaður í Vatnajökulsþjóðgarði, segir í samtali við mbl.is að fundurinn hafi verið gagnlegur. Stærstu fréttirnar sem íbúum voru færðar eru að hennar mati þær að ekkert bendi til þess að Öræfajökull sé að fara í eldgosafasa.

„Það er nú það allra stærsta, því allt annað myndi nú falla í skuggann af eldgosi í Öræfajökli. En, ég er ekki að gera lítið úr skriðunni samt sem áður,“ segir Sigrún.

Hún segir að komið hafi fram að þetta gæti verið ein mjög löng sprunga eða þá að þetta séu mögulega fleiri sprungur. Það ætla jarðvísindamenn Veðurstofunnar og Háskóla Íslands að rannsaka á næstunni, en á vef Veðurstofunnar kemur fram að svæðið verði nú vaktað til að meta hraða og eðli hreyfingarinnar á hlíðinni.

„Ef flekinn er að færast í einu lagi þá er það ekki mjög gott, því það eykur líkurnar á því að hann hrynji þá í einu lagi, en ef það eru millisprungur eða þversprungur þá getur verið að það sé ekki samfelld færsla,“ segir Sigrún.

Það segir hún að væri betra, því þá myndu ef til vill falla fleiri og minni skriður með einhverju millibili.

Sigrún Sigurgeirsdóttir starfar í Vatnajökulsþjóðgarði.
Sigrún Sigurgeirsdóttir starfar í Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikilvægt að fylgjast vel með náttúrunni

Sprungan sem fannst í hlíðinni árið 2014 fannst fyrir tilviljun við smalamennsku. Sigrún segir að á fundinum hafi komið fram að æskilegt væri að láta Veðurstofuna og jarðfræðideild Háskólans vita af öllum breytingum á landi sem fólk verði vart við. Sambærilegar sprungur gætu reynst víða, þrátt fyrir að vísindamenn viti ekki af þeim.

„Breytingarnar í náttúrunni geta verið hluti af stærra ferli. Það er mikilvægt að vísindamenn viti af því, því að þeir rannsaka ekki það sem þeir vita ekki af,“ segir Sigrún.

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að samfara hlýnandi loftslagi á undanförnum árum og áratugum hafi skriðjöklar hopað og þynnst mikið hér á landi. Þegar jöklarnir hopa standi þannig oft eftir brattar hlíðar ofan skriðjöklanna, sem kunna að vera óstöðugar þegar aðhaldi jökulsins sleppir. Þær geta því hrunið niður á jöklana, stundum í miklum berghlaupum.

Þetta segir Sigrún að hafi verið rætt á fundinum, en jarðvísindamenn munu á næstunni meðal annars rannsaka hitastig bergsins í hlíðinni. Þær rannsóknir og aðrar mælingar munu hjálpa til við að leggja mat á líklega framvindu á svæðinu, en í haust verður gefin út skýrsla um niðurstöður mælinga sumarsins og fyrsta mat á stöðunni.

Möguleiki að sprengja stykkið

Sigrún segir að hún hafi spurt að því á fundinum hvort mögulegt væri að sprengja stykkið í áföngum, til að hægt væri að stjórna því hvenær skriðan félli og þá rýma mögulegt áhrifasvæði á meðan.

Hún fékk þau svör að það væri ekki talið einfalt í þessu tilfelli, vegna þess að enn væri ekki vitað með vissu hvort þetta væru eitt stykki eða fleiri. Einnig þyrfti að skoða tryggingamál sérstaklega ef það yrði gert. En það var ekki útilokað.

„Ef það verður hrun á þessu þá getur það valdið tjóni en ef einhver sprengir þetta þá er það sá sem sprengir sem ber ábyrgð á hruninu. Þannig að þetta er líka spurning um tryggingar, en það er bara eitthvað sem þarf að leysa.“

Íbúar voru fræddir um mögulegt umfang berghlaups. „Ef þetta félli í einu lagi gæti þetta orðið gríðarlega stórt, á heimsmælikvarða,“ segir Sigrún, en Veðurstofan hefur gróflega áætlað að magn efnis í hlíðinni sé um 60 milljón rúmmetra.

Ferðafólk á göngu í Öræfum.
Ferðafólk á göngu í Öræfum. mbl.is/RAX

Hún segir þó að vísindamennirnir hefðu lagt áherslu á það að ekki væri búist við að þróunin í fjallshlíðinni yrði hröð eða óvænt. „Þau sögðu að svona myndi að öllum líkindum eiga aðdraganda og þess vegna er mikilvægt að setja af stað rannsóknir,“ segir Sigrún.

Íbúar meðvitaðir um stöðuna

Sigrún segir að íbúar í Öræfum séu meðvitaðir um mögulega hættu en taka verði á málunum með yfirvegun. Á Svínafellsjökli er talsverð umferð ferðamanna allt árið um kring og í tilkynningu Veðurstofunnar og Almannavarna frá því í gær segir að gæta þurfi sérstakrar varúðar við ferðir á jökulinn vegna hættu á skriðuföllum.

„Þetta er bara eins og annað sem menn búa við í rauninni. Það er mjög gott að rannsaka þetta og gera viðbragðáætlanir og það er spurning hvort það eigi að búa til einhverja stýringu á þessum gríðarlega fjölda ferðamanna sem fer á jökulinn,“ segir Sigrún.

Yfirveguð umfjöllun mikilvæg

Öræfingar eru vanir því að fást við náttúruvá í nágrenni sínu og Dóra Guðrún Ólafsdóttir íbúi í Öræfum segir við mbl.is að íbúar vilji að fjallað sé um sprunguna í Svínafellsheiði með yfirveguðum hætti.

„Það græðir enginn á hræðsluáróðri í fjölmiðlum, þá er hætta á að erlendir fréttamiðlar túlki aðstæður ekki rétt og skapi óþarfa ótta við svæðið,“ segir Dóra.

„Mér finnst mjög mikilvægt að fjölmiðlar fjalli um þetta af mikilli varúð vegna þess að hér er mikil ferðaþjónusta í gangi. Öræfajökull er líka búinn að vera að hrista sig og maður sá hvaða áhrif æsifréttamennska hafði á ferðamannastrauminn og fólk almennt,“ bætir Dóra Guðrún við.

Hún segir jafnframt að það sem móðir náttúra taki sér fyrir hendur geti stundum verið ógnvænlegt, en það sé ekki í okkar höndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert