Ferðamönnum fækkar í fyrsta skipti frá 2010

Ferðamönnum til Íslands fækkaði í apríl. Hefur þeim ekki fækkað …
Ferðamönnum til Íslands fækkaði í apríl. Hefur þeim ekki fækkað frá því árið 2010. mbl.is/RAX

Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll voru um 147 þúsund talsins í apríl síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu og Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða sex þúsund færri en í apríl á síðasta ári. Fækkunin nemur 3,9% milli ára en leita þarf aftur til ársins 2010 til að merkja fækkun á milli ára.

Bandaríkjamenn og Bretar voru fjölmennastir í apríl en þeim fækkar nokkuð milli ára. 

Minni hlutfallsleg aukning er nú milli ára fyrir tímabilið janúar-apríl í samanburði við fyrri ár. Frá áramótum hafa um 628 þúsund erlendir farþegar farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 3,7% aukning miðað við sama tímabil í fyrra, samanborið við 55,7% milli ára 2016-17.

Samkvæmt tölunum var fjöldi Bandaríkjamanna 36.274, en þeim fækkar um 10,2% frá því í apríl í fyrra. Bretar voru 22.841 og fækkar þeim um 17,9% milli ára. Þá fækkar ferðamönnum frá öllum Norðurlöndunum. Mest frá Finnlandi, eða um 8,4% og minnst frá Svíþjóð, um 0,3%. 

Mest er fækkunin á ferðamönnum frá Kína, en fjöldi þeirra dróst saman um 30,9% og var 2.458, samanborið við 3.560 á sama tíma í fyrra. Hollendingum fækkar einnig mikið, eða um 25,4%. Þjóðverjum fækkar um 13,8% í mánuðinum, Svisslendingum um 11,4% og Frökkum um 9,9%.

Mikil fjölgun er aftur á móti í komu fólks frá Póllandi, en þeim fjölgaði um 73,9% og voru 7.218 í apríl. Þá fjölgaði Spánverjum einnig um 38,6% og voru þeir 4.398 talsins. Í hópnum „Annað“ fjölgaði einnig um 12,7% og voru ferðamenn frá þeim löndum 29.576.

Þegar horft er til fyrstu fjögurra mánaða ársins hefur fjöldi Bandaríkjamanna næstum staðið í stað, eða fækkað um 0,7%. Bretum hefur fækkað um 6,1%. Ferðamenn frá þessum tveimur löndum eru tæplega helmingur allra ferðamanna hér á landi samkvæmt tölunum. Ferðamönnum hefur fjölgað mest frá Póllandi, um 92,3%, frá Rússlandi, um 42,9% og Spáni, um 29,9%, en ferðamenn frá tveimur síðarnefndu löndunum eru þó nokkuð fámennur hópur. 

Sjá má nánari upplýsingar um fjölda ferðamanna frá hverju landi og hlutfallslega breytingu milli ára á vef Ferðamálastofu.

Mbl.is hefur áður fjallað um dvínandi áhuga erlendis frá þegar leitað er að Íslandi sem ferðamannastað. Þá hefur komið fram að bókunarstaða ferðaþjónustuaðila frá helstu mörkuðum í Evrópu sé allt að 20-30% lakari en í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert