Gliðnun greind í síritandi mælum

Svínafellsjökull.
Svínafellsjökull. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Síritandi mælum verður komið fyrir á næstunni á vegum Veðurstofu Íslands og Háskóla Íslands vegna sprungu sem fannst í vesturhlið Svínafellsheiðar í Svínafellsjökli. Þannig verður hægt að skoða jafnóðum gliðnunina í sprungunni.

Annars vegar verður GPS-stöðvum komið þar fyrir, bæði á stykkinu sem hreyfist og aðeins frá því, og hins vegar togmælum, sem eru eins konar bitar sem eru festir eru sitt hvorum megin í sprunguveggina.

Þetta segir Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands.

Við mælingar Háskóla Íslands á fyrri sprungunni sem fannst árið 2014 mældist gliðnunin rúmlega einn sentímetri á tveimur stöðum á milli áranna 2016 og 2017.

Skoða hraða bergmassans

Komast þarf að því hversu hratt bergmassinn hreyfist, hvort hann hreyfist sem eitt stykki, hvort líklegt sé að berghlaup fari af stað, hver fyrirvarinn yrði á því og hvert áhrifasvæðið yrði.

Einnig stendur til að gera góð landlíkön af svæðinu reglulega og skoða gervitunglagögn sem sýna hreyfingu á því.

„Eins og staðan er núna vitum við ekki mjög mikið en erum að setja af stað mælinga- og vöktunaráætlun til fylgjast betur með á þessu svæði,“ segir Harpa og tekur fram að sprungurnar á svæðinu hafi verið þar í nokkur ár og ekki sé vitað um sérstakar breytingar sem bendi til þess að hlaup sé yfirvofandi núna.

Geta fallið stór berghlaup á svona svæðum

Hún bætir við að það sé ekkert öruggt að stórt berghlaup verði á svæðinu en útilokar jafnframt ekkert. „Það er þekkt að það geta fallið stór berghlaup á svona svæðum í heiminum.“

Spurð hvort Veðurstofan hafi áhyggjur af stöðu mála bendir Harpa á að almannavarnir beini þeim tilmælum til fólks að fara með sérstakri varúð á jökulinn núna. Áætlað er að koma upp aðvörunarskiltum á svæðinu við jökulsporðinn. 

Kanna þarf áhrifasvæðið

Ferðaþjónusta er rekin í Freysnesi sem er neðan við Svínafellsjökul. „Eitt af því sem þarf að kanna er hversu stórt mögulegt áhrifasvæði geti orðið ef þarna yrði berghlaup og hvort það sé bundið við jökulinn sjálfan eða nái niður fyrir hann,“ segir Harpa, spurð hvort áhyggjur þurfi að hafa af því svæði.

Veðurstofan vonast til að hægt verði að svara þessum spurningum betur þegar mælingar sumarsins hafa verið skoðaðar í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert