„Var bara ótrúlega velheppnað verk“

Ljósmynd/Björgunarsveitin Hafliði

Björgunarsveitarmenn og slökkviliðsmenn unnu að því á miðvikudaginn að bjarga línubátnum Digranesi NS sem lent hafði uppi í fjöru í Bakkafirði. Þar festist báturinn í grjóti að sögn Tryggva Steins Sigfússonar, varaformanns Björgunarsveitarinnar Hafliða á Þórshöfn.

Tilkynning barst um klukkan sjö um morguninn og var fljótlega farið í þá vinnu að létta bátinn þegar á staðinn var komið. Meðal annars með aðstoð skurðgröfu. Koma þurfti í land 1,5 tonni af fiski og þá var línan tekin úr bátnum. Skurðgrafan var einnig notuð til þess að rétta bátinn af og ná réttri stefnu út þar sem stýra þurfti honum á milli tveggja klappa.

Ljósmynd/Björgunarsveitin Hafliði

Reynt var að nota skurðgröfuna til þess að taka mesta grjótið í kringum línubátinn en ekki var hægt að krafsa mikið að sögn Tryggva. Fyrst hafi hugmyndin verið að taka í stafnið á bátnum og reyna að snúa honum við en hann hefði sennilega ekki þolað það.

„Við þvinguðum hann aldrei neitt til hliðanna. Við biðum bara eftir flóðinu og þá var grafan tilbúin að toga hann í rétta átt,“ segir hann. Dráttarbáturinn Sveinbjörn Sveinsson frá Vopnafirði dró bátinn síðan smám saman út þegar féll að honum.

Ljósmynd/Björgunarsveitin Hafliði

„Þetta var bara ótrúlega velheppnað og vel unnið verk, heppnaðist alveg ótrúlega vel,“ segir Tryggvi. Aðspurður segir hann tvo hafa verið um borð þegar óhappið hafi orðið. Farið var með dælu um borð til öryggis en ekki þurfi að dæla úr bátnum þegar á reyndi.

Spurður um skemmdir segist Tryggvi halda að þær hafi verið ótrúlega litlar miðað við aðstæður. Stýrið hafi verið kengbogið, skrúfan og hællinn undir bátnum og aðeins brotið úr honum að framan. Erfitt hafi hins vegar verið að meta það nákvæmlega á vettvangi.

Ljósmynd/Björgunarsveitin Hafliði

Fyrir utan dráttarbátinn Sveinbjörn Sveinsson komu tveir björgunarbátar að aðgerðunum. Tryggvi segir aðspurður að 15-20 manns hafi tekið þátt frá Hafliða, þrír frá slökkviliðinu á Þórshöfn og 4-5 björgunarsveitarmenn frá Vopnafirði.

Farið var fyrst með Digranes til hafnar á Bakkafirði eftir að hann komst á flot, sem var á milli klukkan fimm og sex, og síðan var hann dreginn til Vopnafjarðar. Báturinn var kominn þangað um miðnætti og um klukkutíma síðar var hann kominn upp á bryggju.

Ljósmynd/Björgunarsveitin Hafliði
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert