Byrjaði á Lærdómsveginum á geðdeild

Friðþór er nú á góðum stað í lífinu og þakklátur …
Friðþór er nú á góðum stað í lífinu og þakklátur fyrir fjölskyldu og vini. Hann hvetur fólk til að tjá tilfinnngar sínar áður en það er of seint. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við tókum strax ákvörðun um að geðsjúkdómur minn væri ekki tabú. Það skiptir máli og gerir okkur öllum gott að ræða hlutina á opinskáan hátt,“ segir Friðþór Vestmann Ingason, sjúkraliði og þroskaþjálfi sem gaf út bókina, Lærdómsvegurinn, þar sem hann lýsir á rauntíma baráttu sinni við geðsjúkdóminn, geðhvörf tvö og mikið þunglyndi sem hann gekk í gegnum.

„Það skiptir mig miklu máli að umræða um geðsjúkdóma og geðbatterríið sé jákvæð. Margir hafa fengið góðan bata og það er hægt að nýta sér geðsjúkdóma á jákvæðan hátt,“ segir Friðþór sem alinn er upp í Vestmannaeyjum. Hann flutti þaðan 1999 þegar hann elti eiginkonu sína, Ragnheiði Jónsdóttur, til Reykjavíkur þar sem hún hóf nám þroskaþjálfafræði.

„Ég vann með fötluðum í Eyjum og kynntist málefnum þeirra í gegnum mömmu sem vann í kertaverksmiðjunni Heimaey. Í sumarvinnu 1999 kynntist ég Ragnheiði, sem kom til Eyja til að klára stúdentspróf og starfa með hópi fatlaðra einstaklinga. Þegar Ragga fór í námið kunni ég illa við að vera einn í Eyjum og fór með henni en ætlaði strax aftur til baka en hér er ég enn,“ segir Friðþór sem býr í Reykjavík. Hann menntaði sig sem sjúkraliða og vann við það þar til hann fór í nám í þroskaþjálfafræðum við HÍ. Hann starfar nú sem deildarstjóri í íbúðakjarna fyrir fatlaða.“

Friðþór segir veikindin fyrst hafa komið í ljós árið 2010.

„Það var gríðarleg keyrsla á mér þegar ég var að skila lokaritgerðinni í HÍ. Ég svaf nánast ekkert í 10 sólarhringa . Eftir skilin fann ég fyrir þyngslum og skrítnum tilfinningum og var greindur með miðlungsþunglyndi. Árið 2016 hætti ég að geta sofið. Það og erfið samskipti á vinnustað 2014 settu sjúkdóminn í gang,“ segir Friðþór sem segir að gömul óuppgerð mál hafi komið upp. Einelti á vinnustað og sem barn í Eyjum, drykkja foreldra og ábyrgð í kjölfarið sem hann tókst á við allt of ungur.

„Tengingin við raunveruleikann brast og þar með rökhugsunin. Á geðrofatímabilinu tók ég ekki eftir því sjálfur í hvað stefndi og upplifði að allt væri rétt hjá mér, meðan allir aðrir voru ómögulegir. Ég var reiður og pirraður út í allt og alla. Umhverfið var mér erfitt og ég náði ekki að tækla neitt,“ segir Friðþór sem sveiflaðist á milli maníu og þunglyndis sem einkennir geðhvörf tvö.

„Ég var í maníu í einhverja daga, hámark viku í einu og svo kom skellurinn og þunglyndið á eftir. Maníutímabilið var skemmtilegt og hamingja út um allt. Ég var á fullu í félagsstarfi, vann mikið og fór út í það að kaupa utanlandsferðir fyrir fjölskylduna annan hvern mánuð. Sem betur fer keypti ég ekki dýrar ferðir,“ segir Friðþór og hlær, en bætir svo við alvarlegur: „Ég var alltaf eitthvað svo þreyttur á sjálfum mér og konunni fannst þetta ástand orðið skrýtið,“ segir Friðþór sem endaði á bráðamótttöku geðdeildar.

 Gimsteinninn Fjóla Katrín

„Ég var heppinn að greiningin tók ekki langan tíma. Í dag er ég á góðum stað og held sjúkdómnum niðri með lyfjum, passa að álag sé ekki of mikið, lifi í fastri rútínu og er í viðtölum hjá sálfræðingi einu sinni í mánuði og eftir þörfum. Lyfin hjálpa mér heilmikið en í sálfræðimeðferðin mest. Sálfræðingurinn minn, Fjóla Katrín Steinsdóttir, er algjör gimsteinn og ég er henni óendanlega þakklátur fyrir hjálpina. Fjóla færði mér verkfæri sem ég nota til þess að halda sjúkdómnum niðri og hugræn atferlismeðferð hefur hjálpað mér að henda reiður á hugsununum,“ segir Friðþór

„Það er gríðarlega mikilvægt að sálfræðiþjónusta sé niðurgreidd. Ég geng til sálfræðings einu sinni í mánuði og oftar ef líðan mín þannig. Hver tími kostar 10 til 16.000 krónur. Ég þurfti mikið á sálfræðingi að halda árið 2017 og það kostaði mig nokkur hundruð þúsund,“ segir Friðþór sem vonast til þess að ráðamenn átti sig á mikilvægi sálfræðiaðstoðar.

„Kostnaður getur fælt fólk frá að nýta sér þjónustu sem getur í raun aukið lífsgæði fólks.“

Friðþór segir að eitt af markmiðum bókarinnar sé að fjalla jákvætt um geðsjúkdóma og geðheilbrigðiskerfið.

Sjá viðtal við Friðþór í heild í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »