Eurovision 103: Úrslitakvöldið

Eleni Foureira frá Kýpur. Beyoncé eða Shakira?
Eleni Foureira frá Kýpur. Beyoncé eða Shakira? Ljósmynd/Andres Putting

Í kvöld stíga 26 þjóðir á svið til þess að freista þess að fara með sigur af hólmi í Söngkeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Íslendingar eru þekktir fyrir að hafa óvenjumikinn áhuga á keppninni, en það er hefð á flestum heimilum landsins að stilla á Ríkisútvarpið um kvöldmatarleyti á keppnisdag. Fólk fylgist þó auðvitað misvel með því sem fram fer á stóra sviðinu.

En hvaða þjóðir eru það sem etja kappi í kvöld, hvenær er best að taka salernispásu frá áhorfinu, hverju má alls ekki missa af og hverjir eru það sem eru líklegastir til að vinna keppnina þetta árið?

Þjóðirnar 26 eru eftirfarandi og stíga á svið í þessari röð. Hér getið þið líka séð hvenær má eiga von á auglýsingahléum, svona fyrir þá sem vilja alls ekki missa af neinu.

1. Úkraína
2. Spánn
3. Slóvenía
4. Litháen
5. Austurríki
6. Eistland
7. Noregur
8. Portúgal

Auglýsingahlé

9. Bretland
10. Serbía
11. Þýskaland
12. Albanía
13. Frakkland
14. Tékkland
15. Danmörk
16. Ástralía

Auglýsingahlé

17. Finnland
18. Búlgaría
19. Moldóva
20. Svíþjóð
21. Ungverjaland
22. Ísrael
23. Holland
24. Írland
25. Kýpur
26. Ítalía

Þeir sem kvíða því að tvær klósettpásur dugi þeim ekki þurfa ekki að örvænta, því samkvæmt veðbönkum ætti að vera óhætt að missa af Serbíu, Bretlandi, Albaníu, Portúgal og Úkraínu, svo eitthvað sé nefnt.

Þau atriði sem áhorfendur ættu hins vegar ekki að láta fram hjá sér fara eru meðal annarra hin margrómaða Netta frá Ísrael, en henni var lengst af spáð 1. sætinu af veðbönkum. Þó má segja að hún sé nokkuð umdeild, en sigurvegari síðasta árs, Salvador Sobral, hefur verið gagnrýndur fyrir þau ummæli sín að lagið væri „hræðilegt“ og að ekkert hafi breyst síðan hann vann. Netta lætur slík ummæli þó ekki á sig fá og sendi ástarkveðju til Sobral í gegn um Twitter.

Það var hún Eleni Foureira sem tók fram úr Nettu hjá veðbönkum í vikunni með lagið „Fuego“. Einhverjir hafa líkt henni við Beyoncé en aðrir segja hana frekar líkjast Shakiru. Ljóst er að hún gefur dívunum tveimur ekkert eftir og því ætti enginn að vilja missa af hennar framlagi í kvöld.

Þau lönd sem einnig er spáð góðu gengi í veðbönkum eru Frakkland, Litháen, Þýskaland, Svíþjóð, Írland og Ítalía.

Önnur atriði sem vakið hafa athygli eru til dæmis Úkraína fyrir eld á sviðinu, Slóvenía fyrir að vera á móti hvalveiðum með lagið „Hvala, ne!“, Eistland fyrir glæsilegan kjól, Danmörk fyrir víkingana, Moldóva fyrir einstakt dansatriði og Ungverjaland fyrir grjóthart þungarokk.

Allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi á sjónvarpsskjánum í kvöld. Góða skemmtun!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert