Slógu Íslandsmet í perlun armbanda

Heimir Hallgrímsson, perlaði nokkur armbönd til styrktar Krafti í dag.
Heimir Hallgrímsson, perlaði nokkur armbönd til styrktar Krafti í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmetið í perlun armbanda var slegið í stúkunni á Laugardalsvelli í dag þar sem Tólfan, stuðningsmannalið íslenska landsliðsins í knattspyrnu, og Kraftur, stuðningsfélag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra, sameinuðu krafta sína og perluðu armbönd í fánalitunum.

Um er að ræða ný perluð armbönd í fánalitunum með skilaboðunum „Lífið er núna“ og eru þau alfarið seld til stuðnings Krafti.

Nýju armböndin eru að sjálfsögðu í fánalitunum.
Nýju armböndin eru að sjálfsögðu í fánalitunum.

„Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Við vorum hérna alveg fram til þess síðasta til að reyna að slá Íslandsmetið og við vorum rétt í þessu að tilkynna að okkur tókst að perla 3983 armbönd,“ segir Ástrós Rut Sigurðardóttir, formaður Krafts, í samtali við mbl.is. Fyrra metið var 3972 armbönd og var það sett í Hörpu í janúar.  

Landsliðsþjálfarar fóru í kapp

Fjölmargir listamenn komu fram á viðburðinum og þá kepptust landsliðsþjálfararnir Freyr Alexandersson og Heimir Hallgrímsson um hvor þeirra væri fljótari að perla armband og lýsti Gummi Ben keppninni á sinn einstaka hátt.

„Við héldum fyrst að Freyr hefði unnið en svo varð niðurstaðan jafntefli,“ segir Ástrós. Þjálfararnir stóðu svo fyrir uppboði á armböndunum og þar hafði Heimir betur sem náði að selja sína afurð á 60.000 krónur á meðan Freyr fékk 15.000 krónur fyrir sitt, sem er engu að síður glæsilegur árangur.

Freyr Alexandersson, þjálfari kvennaliðs Íslands í knattspyrnu, ánægður með dagsverkið.
Freyr Alexandersson, þjálfari kvennaliðs Íslands í knattspyrnu, ánægður með dagsverkið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágóðinn af sölu armbandanna rennur til starfsemi Krafts. „Við ætlum að bæta þjónustu við okkar félagsmenn. Við bjóðum nú þegar upp á sálfræðiþjónustu, félagsaðstoð og fjárhagsaðstoð, en nú viljum við bæta við sérstökum endurhæfingarhelgum þar sem áhersla verður lögð á að njóta lífsins í núinu og  gera eitthvað skemmtilegt,“ segir Ástrós.

Alls voru 3972 armbönd perluð í dag og er það …
Alls voru 3972 armbönd perluð í dag og er það nýtt Íslandsmet í fjölda armbanda sem perluð eru í einni lotu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert