Ákærður fyrir ítrekuð brot gegn konunni

Maðurinn við komuna í Héraðsdóm Norðurlands eystra í morgun. Hann …
Maðurinn við komuna í Héraðsdóm Norðurlands eystra í morgun. Hann er ákærður fyrir ítrekuð brot gegn þroskaskertri konu. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Maður sem ákærður hefur verið kynferðisbrot í starfi sínu sem boccia-þjálfari á Akureyri, er ákærður fyrir að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við þroskaskerta konu í fjölda skipta á tímabilinu frá því í júní 2014 og fram í júní 2015.

Maðurinn neitaði sök er málið var þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra í morgun og hefur dómstóllinn gert hluta ákærunnar aðgengilegan, en dómshald í málinu er lokað.

Er maðurinn sagður hafa nýtt sér yfirburði sína og aðstöðumun gagnvart konunni, sem er með þroskahömlun og „gat því ekki skilið þýðingu verknaðarins,“ að því er fram kemur í ákæru.

Segir í ákærunni að manninum hafi verið kunnugt um fötlun konunnar vegna tengsla sinnar við hana sem þjálfari. Þá hafi hann útvegað henni húsnæði og bíl í janúar 2015 og hafi nýtt sér trúnað hennar í sinn garð. Aukinheldur hafi hann gerst persónulegur talsmaður hennar í maí 2015.

Er þess krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar, en einnig er lögð fram einkaréttarkrafa fyrir hönd konunnar. Er þar krafist þess að hann greiða henni tvær milljónir króna í miskabætur.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert