ESB bregst við umræðu um tollkvóta á kjöti

Í sláturhúsi SS á Selfossi.
Í sláturhúsi SS á Selfossi. mbl.is/RAX

Evrópusambandið gengur út frá því að miðað sé við vöruvigt við ákvörðun tollkvóta, þ.e.a.s. kjöt án þess að bein séu sérstaklega reiknuð inn í þyngdina. Þetta kemur fram í tilkynningu Evrópusambandsins á Íslandi, vegna umræðu um landbúnaðarsamninga Íslands og ESB sem undirritaðir voru árið 2015. Undir tilkynninguna ritar Michael Mann, sendiherra ESB á Íslandi.

Umræður um útreikning tollkvótanna hafa staðið yfir í nokkra daga og ekki eru allir á einu máli um viðmiðin samkvæmt samningunum. Upphafið má rekja til skýrslu starfshóps um tollasamning og mótvægisaðgerðir stjórnvalda þar sem lagt var til að „við útreikning á magni tollkvóta við innflutning verði miðað við ígildi kjöts með beini, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.“

Mann útskýrir að vöruvigt gildi, hafi annað ekki verið sérstaklega tekið fram í texta samningsins. Í samningnum frá árinu 2015 komi hvergi fram að aðilar muni notast við skrokkavigt (kjöt með beini). Þó sé í gildi undantekning vegna lambakjöts sem eigi sér „sögulegar skýringar“.

Í athugasemdum við færslu Evrópusambandsins á Facebook segir að forsaga undantekningarinnar sé í skoðun hjá samstarfsfólki sendinefndar ESB í Brussel, en við fyrstu sýn virðist hún vera arfleifð frá GATT (alþjóðasamningi um tolla og vöruviðskipti frá 1994) sem hafi af einhverjum ástæðum lifað áfram í samningnum við Ísland frá árinu 2015.

Gagnrýna áform ráðherra

Neytendasamtökin og Samtök verslunar og þjónustu óskuðu í síðustu viku eftir upplýsingum frá atvinnuvegaráðuneytinu um hvernig staðið hefði verið að útreikningunum frá því fyrri samningar við ESB um innflutning á landbúnaðarvörum voru gerðir árið 2007. Gagnrýndu samtökin að íslensk stjórnvöld hygðust reikna innflutning á kjöti út með beini og sögðu að breytingin fæli í sér verulega skerðingu á því magni sem nú væri heimilað að flytja inn samkvæmt tollkvótum eða um allt að þriðjung.

Félag atvinnurekenda sendi Kristjáni Þór Júlíussyni, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, bréf vegna málsins og sagði Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri að áform ráðherra væru algjörlega forkastanleg í ljósi þess að stór hluti þess ávinnings sem í samningum fælist fyrir íslenska neytendur yrði hafður af þeim. Sagði hann ráðherrann ætla sér að skerða einhliða tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir kjöt sem tollasamningur Íslands og ESB kvæði á um.

Landsamtök sláturleyfishafa sendu síðan frá sér tilkynningu í dag þar sem þau sögðu málflutning Ólafs byggja á röngum upplýsingum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hygðist ekki skerða innflutning fyrir bein í kjöti einhliða með stuðlum. Evrópusambandið hefði alla tíð notast við stuðla við mat á útflutningi á kjöti frá Íslandi. Í því fælist að beinlaust kjöt væri reiknað með stuðlum til að finna ígildi kjöts með beini. Það gæfi augaleið að með þessu skertist magnið sem Ísland gæti flutt út.

„Samn­ing­ur við Evr­ópu­sam­bandið um tolla­mál er gagn­kvæm­ur samn­ing­ur þar sem Ísland eyk­ur inn­flutn­ings­heim­ild­ir meðal ann­ars á kjötvör­um gegn því að fá aukn­ar heim­ild­ir til út­flutn­ings til markaða Evr­ópu­sam­bands­ins. Þetta er tví­hliða samn­ing­ur þar sem sömu regl­ur hljóta að gilda í báðar átt­ir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert