Fjandsamleg yfirtaka

Hópur fólks hefur flutt lögheimili sitt í Árneshrepp vegna áforma …
Hópur fólks hefur flutt lögheimili sitt í Árneshrepp vegna áforma um Hvalárvirkjun. mbl.is/Golli

Umhugsunarefni er að utanaðkomandi aðilar geti gert einskonar áhlaup á fámenn sveitarfélög til þess að hafa áhrif á mál sem þar eru til umfjöllunar, segir Haraldur Benediktsson, 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis. Tilefnið er að alls sautján manns hafa á síðustu vikum flutt lögheimili sitt í Árneshrepp á Ströndum, en áður voru þar 43 með lögheimili. Því er fjölgunin 40%. Þetta gerist í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, en ný hreppsnefnd í þessu fámennasta sveitarfélagi landsins mun ráða miklu um byggingu fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar.

„Það er hættuleg þróun að hægt sé að bera fé á sveitarstjórnir í fámennum byggðum til að hafa áhrif á ákvarðanir,“ segir Haraldur. „Í Reykhólasveit heimilaði sveitarstjórn lagningu vegar um Teigsskóg en eftir það komu fjársterkir menn sem buðust til þess að greiða fyrir úttekt á því hvort annað vegstæði skyldi valið. Þetta efni ræddi ég með forystumönnum við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á dögunum, sem hét því að gerð yrði úttekt á lögmætinu. Í Árneshreppi, þar sem skipulagsdrög vegna virkjunar hafa verið samþykkt, hafa sveitarstjórnum sömuleiðis verið boðnir fjármunir til þess að skoða og byggja upp nýja valkosti verði ekki virkjað.“

Fram hefur komið að Þjóðskrá Íslands mun athuga hvort eðlilegar skýringar séu á flutningi lögheimilis fólks í Árneshrepp. Samkvæmt lögfræðiáliti sem gert hefur verið fyrir sveitarstjórn bendir margt til þess að flutningarnir séu málamyndagjörningar og fram kom í fréttum að níu manns hafa skráð sig til heimilis á Dröngum, að landeigendum þar forspurðum.

Þarf að bregðast við

„Ég velti fyrir mér hvert við séum komin þegar stefnir í fjandsamlega yfirtöku á sveitarfélögum. Vestfirðir eru landshluti sem er að rísa úr margra ára kyrrstöðu vegna aðgerða í atvinnumálum. Þá er umhugsunarvert að menn geti notað aðstæður og löggjöf sem er barn síns tíma til að yfirtaka ákvörðunarvald heimamanna með peningum og því að reyna að hafa áhrif á kosningar. Þessu þurfa sveitarfélög að bregðast við,“ segir Haraldur. 

Haraldur Benediktsson
Haraldur Benediktsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert