Biskup fór ekki að lögum við skipun prests

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Biskup Íslands fór ekki að lögum við skipun Páls Ágústs Ólafssonar í embætti héraðsprests Vesturlandsprófastsdæmis. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í gær. Var Páll skipaður til eins og hálfs árs, en með dóminum var lagt fyrir biskup að gefa út erindisbréf til handa Páli með gildistíma frá 1. júlí 2017 til 30. júní 2022.

Páll Ágúst var skipaður sóknarprestur á Staðarstað, en síðar upphófust deildur milli Páls Ágústs og biskups, m.a. vegna prestsbústaðarins á Staðarstað. Síðasta sumar var svo  skorað á biskup að leysa Pál Ágúst fá störfum sóknarprests á Staðarstað.

Bauð biskup Páli að hann yrði settur í starf héraðsprests Vesturlandsprófastsdæmis þann tíma sem eftir væri af tímabundinni skipun hans í embætti sóknarprests Staðarstaðarprestakalls, þ.e. til 30. nóvember 2018, en hann hafði sinnt embætti héraðsprests Vesturlandsprófastsdæmis í hjáverkum.

Nýr skipunartími byrjaði að líða

Þessu undi Páll Ágúst ekki og fyrir héraðsdómi vísaði hann m.a. í ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um skipun embættismanna og ákvæði sem lúta að flutningi þeirra milli embætta. Páll hafði meðfram störfum sínum að Staðarstað sinnt starfi héraðsprests í Vesturlandsprófstsdæmi. Þrátt fyrir það taldi hann að við skipun hans í embætti héraðsprests Vesturlandsprófastsdæmis á síðast ári hefði nýr skipunartími byrjað að líða.

Að mati dómsins þótti sýnt af bréfaskiptum aðila að biskup hefði með tilfærslu Páls í starfi, 1. júlí 2017, í raun komið á fót nýju embætti héraðsprests í Vesturlandsprófastsdæmi þar sem starfskraftar hans yrðu nýttir til fulls. Engu breytti þótt hann hefði áður verið skipaður héraðsprestur í Vesturlandsprófastsdæmi.

Þar sem hann hefði í reynd verið fluttur í nýtt embætti héraðsprests í prófastsdæminu leiddu ákvæði fyrrnefndra laga til þess að eldri skipunartíma hans í embætti sóknarprests að Staðarstað hafi þar með lokið. Í ljósi þess að embættismenn skuli skipaðir tímabundið til fimm ára í senn og að héraðspresta skuli skipa til jafnlangs tíma þætti að mati dómsins sýnt að við tilflutninginn hafi nýr fimm ára skipunartími byrjað að líða. Var biskupi því gert að gefa út fyrrgreint erindisbréf til fimm ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert