Hafnaði kröfu um afturköllun á dómkvaðningu matsmanns

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafnaði kröfu Árna Gils Hjaltasonar um afturköllun á dómkvaðningu matsmanns. Þar sem dómkvaðning hafði þegar farið fram og matsgerð þegar verið afhent væri engin lagastoð fyrir kröfunni.
Árni var í maí 2017 ákærður fyrir tilraun til manndráps. Hann var sakfelldur í héraði í ágúst sama ár og dæmdur í fangelsi. Með dómi Hæstaréttar 7. desember síðastliðinn var héraðsdómurinn ómerktur, meðal annars vegna þess að málið hafði ekki verið rannsakað nægilega til að dómur yrði á það lagður.
Í þinghaldi sem fór fram 8. janúar var dómkvaddur matsmaður, að kröfu ákærandans, fenginn til að svara tilteknum spurningum varðandi málsatvik. Matsmaðurinn er sérfræðingur í réttarmeinafræði og starfar á Landspítalanum, að því er fram kemur í úrskurði héraðsdóms.
Fram kemur, að matsmaðurinn hafi ekki haldið matsfund og mun heldur ekki hafa fengið send öll gögn. Hann sendi hins vegar frá sér skjal sem innihélt álit hans á því sem hann hafði verið beðinn um að meta. Sækjandinn sendi verjandanum skjalið sem í framhaldinu krafðist þess að dómkvaðning sérfræðingsins sem matsmanns í málinu yrði afturkölluð og annar hæfur matsmaður yrði dómkvaddur í hans stað. Sækjandinn mótmælti kröfunni og kvað matsmanninn ekki hafa gert sig vanhæfan þótt hann hefði sent frá sér framangreint skjal. 

Héraðsdómur segir að ekki sé hægt að líta á skjalið sem matsgerð. Samkvæmt því sé ljóst að matsmaðurinn hafi ekki lokið matinu en það geri hann ekki vanhæfan til starfans. Því var ekki orðið við kröfu Árna um að afturkalla dómkvaðninguna.

Landsréttur vísar svo til þess að í 6. mgr. 128. gr. laga um meðferð sakamála og 1. mgr. 133. gr. sömu laga væri ekki að finna heimild fyrir matsþola til að hafa uppi slíka kröfu. Þar sem dómkvaðning hafði þegar farið fram og matsgerð þegar verið afhent væri engin lagastoð fyrir kröfu Árna. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert