Kvaðir á lóðinni hentuðu ekki verkefninu

„Við fengum úthlutað lóð á Nauthólsvegi en hún hentaði ekki okkar verkefni þannig að við skiptum henni út og fengum aðra í staðinn,“ segir Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags, í samtali við mbl.is. Lóðin við Nauthólsveg í Reykjavík var að hans sögn með þeim kvöðum að verslunarhúsnæði yrði að vera á jarðhæð sem hafi ekki hentað.

„Við erum bara íbúðafélag og getum ekki verið í því að reka verslunarhúsnæði,“ segir Björn. Í staðinn hefði félagið fengið úthlutað lóð í Hraunbæ. Reykjavíkurborg tilkynnti í gær að Bjargi og Félagsstofnun stúdenta hefði verið úthlutað lóðum í Skerjafirði undir samtals 260 íbúðir. Þar af 160 íbúðir fyrir stúdenta og 100 íbúðir fyrir skjólstæðinga íbúðafélagsins.

Lóðaúthlutunin er hluti af viljayfirlýsingu frá 2016 á milli Alþýðusambands Íslands og Reykjavíkurborgar um byggingu 1000 leiguíbúða fyrir félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar á fjórum árum en að auki sér Bjarg um að byggja félagslegar íbúðir fyrir Félagsbústaði. Þegar hefur verið úthlutað lóðum undir 489 íbúðir í Reykjavík en 563 á landinu í heild.

„Við erum komin með 238 íbúðir í byggingu og erum með 426 íbúðir í hönnun. Ástæða þess að þetta samanlagt er meira en 563 er sú að við erum að 101 íbúð fyrir Félagsbústaði í leiðinni. Þetta eru íbúðir í Reykjavík, á Akranesi, Akureyri, í Þorlákshöfn og Sandgerði. meira er í pípunum og viðræður í gangi við fleiri sveitarfélög,“ segir Björn og bætir við:

„Við verðum farin að nálgast 1000 íbúðirnar í lok þessa árs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert