Aðeins sveitarstjórn getur fengið íbúalista

Frá Gjögri í Árneshreppi.
Frá Gjögri í Árneshreppi. mbl.is/Golli

Þjóðskrá Íslands stefnir að því að ljúka skoðun sinni á óvenju miklum lögheimilisflutningum í Árneshrepp í kringum næstu helgi. Kjörskráin barst sveitarstjórn Árneshrepps í gær og verður lögð fram á fundi hennar klukkan 16 í dag, tíu dögum fyrir kjördag, eins og lög gera ráð fyrir. 17-18 manns fluttu lögheimili sitt í Árneshrepp á tveggja vikna tímabili frá því í lok apríl og þar til í byrjun maí. Vakti þetta eftirtekt við eftirlit Þjóðskrár og í kjölfarið var ákveðið að skoða þessa flutninga, sem eru hlutfallslega miklir í þessu fámennasta sveitarfélagi landsins, nánar. Fékk stofnunin m.a. aðstoð lögreglu við að afla gagna. 

Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri stjórnasýslusviðs Þjóðskrár Íslands, segist ekki eiga von á því að athugun stofnunarinnar á lögheimilisflutningunum í Árneshreppi verði lokið fyrir fund hreppsnefndar í dag. „Við erum að keppast við að safna gögnum og kalla eftir frekari upplýsingum,“ segir hún, „en við eigum von á að klára þetta öðru hvoru megin við helgina.“ Ástríður segir að hvert og eitt mál sé skoðað sérstaklega.

Hægt að breyta kjörskrá fram á kjördag

Í lögum um kosningar til sveitarstjórna segir að á kjörskrá séu þeir sem skráðir voru með lögheimili í sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag. Kjörskrána þarf að staðfesta á fundi sveitarstjórnar og verður hún að vera undirrituð af oddvita eða framkvæmdastjóra hennar.  Sveitarstjórn skal, lögum samkvæmt, taka til meðferðar athugasemdir sem henni berast vegna kjörskrár og gera viðeigandi leiðréttingar. Slíka leiðréttingu má gera fram á kjördag.

Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður.
Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður.

„Ef við gefum okkur að ákvarðanir Þjóðskrár myndu hafa áhrif á kjörskrá þá er það sveitarstjórna að taka afstöðu til þess,“ útskýrir Ástríður. Tíu dögum fyrir kjördag þarf kjörskrá að liggja frammi almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða á „öðrum hentugum stað“ eins og það er orðað í 9. gr. laganna. Sá frestur rennur út í dag.

Ástríði er ekki kunnugt um hvort einhverjir þeirra sem fluttu lögheimili sitt í Árneshrepp á Ströndum hafi dregið þann flutning til baka, þ.e. skipt aftur um lögheimili. „Athugun stofnunarinnar lítur eingöngu að flutningum á þessu tiltekna tímabili en fólk getur auðvitað breytt sinni lögheimilisskráningu með auðveldum hætti. En þetta hef ég ekkert skoðað sérstaklega enda hefur það ekki áhrif á þau mál sem eru til athugunar hjá okkur núna.“

„Það kemur þér ekki við“

Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps í gær var m.a. rætt hvernig listi með nöfnum þeirra sem Þjóðskrá hefur nú til skoðunar komst í hendur Kristins H. Gunnarssonar, fyrrverandi þingmanns, sem birti hann á bloggsíðu sinni fyrir helgi. Enginn hreppsnefndarmanna kannast við að hafa afhent Kristni listann.

Mbl.is leitaði svara hjá Kristni um hvaðan hann hefði listann. „Það kemur þér ekkert við,“ svaraði hann. Sagði hann „alveg augljóst mál“ að þeir sem væru að flytja lögheimili sitt í Árneshrepp væru að gera það í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fyrirhuguð Hvalárvirkjun, sem hart er deilt um í hreppnum, verði að veruleika. „Og það er mjög óeðlilegur tilgangur.“

Margir hafa aðgang að Þjóðskrá að hluta

Spurð út í birtingu nafnalista yfir þá sem fluttu lögheimili sitt í Árneshrepp svarar Ástríður: „Það er í raun enginn sem getur fengið svona lista sendan frá okkur. Sveitarfélög fá íbúaskrá senda 1. desember ár hvert og geta fengið svo fengið hana senda þegar þau óska eftir því. En stofnunin sendir ekki út lista yfir einstaklinga eða hagi þeirra með almennum leiðum.“

Hún segir að hins vegar verði að hafa í huga að margir, m.a. fyrirtæki og stofnanir, hafi ákveðinn aðgang að Þjóðskrá. Í gegnum slíkan aðgang sé m.a. hægt að leita eftir nafni viðkomandi eða heimilisfangi. Þar er þó ekki hægt að nálgast upplýsingar um hvenær viðkomandi flutti sitt lögheimili. „Þjóðskrá Íslands hefur ekki sent neina nafnalista til óviðkomandi út,“ segir Ástríður, „hvorki í þessu máli né öðrum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert