Framhald gjaldtökunnar ekki ákveðið

Gjaldtaka hófst að nýju á bílastæði við Hraunfossa í gær.
Gjaldtaka hófst að nýju á bílastæði við Hraunfossa í gær. mbl.is/Eggert

Ekki hefur verið ákveðið hvort gjaldtöku á bílastæðum við Hraunfossa verði haldið áfram á morgun að sögn Evu B. Helgadóttur, lögmanns H-foss, félagsins sem stendur að gjaldtökunni. Líkt og síðasta haust stöðvaði lögregla gjaldtöku á bílastæðinu í dag.

„Við munum örugglega taka stöðuna á morgun,“ segir hún, en Eva telur að óheimilt sé að meina landeigendum gjaldtöku vegna bílastæðanna. „Ég veit ekki á hverju ákvörðun lögreglunnar er byggð, ég hef ekki séð ákvörðunina,“ segir hún.

Eva sagði í samtali við mbl.is í gær að bann gegn gjaldtöku styddist ekki við heimild í lögum og að yfirvöldum væru óheimil afskiptin.

Boða að dagsektir verði lagðar á H-foss

Umhverfisstofnun boðaði í dag að lagðar yrðu á H-foss vegna gjaldtökunnar að sögn Evu. „Við fengum frest til hádegis á morgun til að andmæla. Við munum koma þeim athugasemdum á framfæri, þær eru ekki flóknar. Það er einfaldlega engin lagaheimild fyrir þessari ákvörðun. Ef stjórnvöld ætla að beita þvingunarráðstöfum gegn einhverri athöfn, þá verður sú athöfn að vera saknæm og ólögmæt. Athöfnin er hvorugt,“ segir Eva.

Stjórnsýslukæra er til umfjöllunar í Umhverfisráðuneytinu vegna gjaldtöku við Hraunfossa síðasta haust. „Þegar ég ýtti við þeim um daginn fékk ég það svar að þau myndu reyna að klára þetta fyrir lok mánaðarins,“ segir hún. 

mbl.is