Landspítali öflugasta stofnun á landinu

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, ávarpaði ársfundargesti.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, ávarpaði ársfundargesti. mbl.is/Hari

Bjartsýni og framgangur einkenndu ávörp heilbrigðisráðherra og forstjóra Landspítalans við setningu ársfundar spítalans sem fram fer í Hörpu í dag. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði Landspítalann mikilvæga þungamiðju og móðurskip heilbrigðisþjónustunnar í heild, og að mikilvægt væri að öll þjónusta væri samstíga. „Við erum samherjar,“ sagði hún og vísaði til Heilbrigðisráðuneytisins og Landspítala.

Páll Matthíasson, forstjóri LSH, þakkaði Svandísi fyrir fögur orð í garð spítalans og sagðist skynja mikinn velvilja frá heilbrigðisráðherra, en líka kröfur.

Yfirskrift ársfundarins, Landspítali í vörn og sókn, sagði hann eiga vel við, enda væri mikilvægt að geta spilað bæði. Hann sagði heilbrigðisstarfsfólk einmitt þekkja þessa kröfu, enda geti allt gengið eins og í sögu einn daginn, en ill þann næsta. Á sumum deildum spítalans gengi rekstur vel, á meðan á öðrum væri allt í hers höndum.

Páll sagði Landspítalann öflugustu stofnun á landinu og að hann myndi enn styrkjast með uppbyggingu, en á sama tíma þyrfti að verjast þeim ógnum sem stafi að spítalanum, þeim sömu og stafi að slíkum stofnunum á alþjóðavettvangi.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Hari

Skort á heilbrigðisstarfsfólki vegna öldrunar þjóðarinnar sagði hann stærstu áskorun heilbrigðiskerfisins, líkt og í löndunum í kring um okkur. „Það eru allir að glíma við sama vandann og leita að lausnum. Við erum ekki ein og þurfum og þurfum ekki alltaf að finna upp hjólið.“

Engan sagði hann hafa fundið hina einu sönnu lausn við vandanum, en að einhverjar lausnir væru samt fundnar. Að lokum sagði hann Landspítalann aldrei hafa verið öflugri. „Vörn er besta sóknin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert