Stemningin fyrir HM orðin „fáránlega góð“

Tólfan vill sjá fullan Laugardalsvöll í júní, en ekki að …
Tólfan vill sjá fullan Laugardalsvöll í júní, en ekki að vörumerki hennar sé misnotað. mbl.is/Golli

Tólfan, stuðningsmannasveit íslensku landsliðanna í knattspyrnu, er í óðaönn undirbúa sig fyrir ferð sína á HM í Rússlandi, þar sem meðlimir munu halda uppi stemningunni í kring um leiki Íslands í mótinu.

Það kemur ef til vill einhverjum á óvart, en einn liður í því var að gera samning við auglýsingastofuna Pipar\TBWA um vörumerkjavernd, sem felur í sér að auglýsingastofan gæti hagsmuna Tólfunnar og gæti að því að vörumerki Tólfunnar sé ekki misnotað í markaðslegum tilgangi.

„Þetta er bara til þess að vernda okkur held ég. Samkvæmt okkur vitrari mönnum er Tólfan verðmætt vörumerki,“ segir Sveinn Ásgeirsson, varaformaður stuðningsveitarinnar. Hann segir að ef einhverjir vilji nota merki Tólfunnar þurfi þeir að hafa samband.

„Þetta er svipað og KSÍ er að gera, þeir eru að vernda lógóið hjá sér og okkur var bent á að það væri sniðugt að hugsa út í þetta,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is. Hann þekkir þó engin dæmi um að merki Tólfunnar hafi verið misnotað, en allur er varinn góður.

Sveinn Ásgeirsson, varaformaður Tólfunnar
Sveinn Ásgeirsson, varaformaður Tólfunnar mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta er bara til að passa upp á Tólfuna, að það sé ekki verið að nota hana í einhverja vitleysu.“

Þrír leikir til að keyra upp stemninguna heima

Stemningin fyrir HM í Rússlandi er orðin „fáránlega góð“ í röðum Tólfunnar, að sögn Sveins. Síðasta laugardag perlaði Tólfan armbönd í fánalitunum með Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein.

„Það var frábært start á góðu sumri og nú er bara fullur undirbúningur fyrir komandi leiki hérna heima og svo Rússland,“ segir Sveinn, en karlalandsliðið leikur vináttuleiki gegn Noregi og Gana á Laugardalsvelli 2. og 7. júní og kvennalandsliðið á mikilvægan leik gegn Slóveníu þann 11. júní.

„Við höfum þarna þrjá leiki til að hita upp og búa til æðislega stemningu hérna heima,“ segir Sveinn og bætir við að hann sé ánægður að landsliðið hafi kosið að vera með sinn undirbúning fyrir mótið hérlendis.

Stuðningsmannasveitin mun að venju hita upp á Ölver fyrir leikina …
Stuðningsmannasveitin mun að venju hita upp á Ölver fyrir leikina þrjá í júnímánuði. mbl.is/Eggert

„Það vill svo skemmtilega til að 2. júní er laugardagur og það er ekki oft sem við fáum heimaleik á laugardegi hérna, hvað þá klukkan átta um kvöldið, þannig að það má búast við góðri stemningu niðri í Laugardal,“ segir Sveinn og vill minna á að miðasölu er hafin á leikina þrjá.

„Við í Tólfunni vonumst alltaf eftir fullum velli á Laugardalsvelli, til að halda þessu sem gryfju og halda okkur taplausum á heimavelli áfram,“ segir Sveinn, sem vonar að það séu ekki allt of margir búnir að ákveða að fara upp í sumarbústað.

Íslendingapartí eftir hvern einasta leik í Rússlandi

Tólfan verður svo að sjálfsögðu með karlalandsliðinu í Rússlandi og stýrir stemningunni í stúkunni á hverjum einasta leik, í Moskvu, Volgograd og Rostov.

Að sögn Sveins er stuðningssveitin einnig búin að skipuleggja partí eftir alla leiki Íslands í riðlakeppninni í samstarfi við ferðaskrifstofuna Tripical á stórum skemmtistöðum í hverri einustu borg.

„Það verður næg gæsla og allt hvað eina, við djömmum á öruggum stað!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert