Tugþúsundir komi saman í Hljómskálagarði

Útsendingar frá HM í knattspyrnu munu fara fram í Hljómskálagarðinum …
Útsendingar frá HM í knattspyrnu munu fara fram í Hljómskálagarðinum og á Ingólfstorgi í sumar. Leikir Íslands verða sýndir í Hljómskálagarðinum en allir leikir mótsins á Ingólfstorgi. Myndin sýnir fyrirhugað skipulag í Hljómskálagarðinum. Ljósmynd/Aðsend

Borgarstjóri Reykjavíkur og formaður KSÍ búast við að tugþúsundir vilji koma saman til að horfa á leiki Íslands í Hljómskálagarðinum, en greint var frá því í dag að allir leikir íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu verði sýndir á risaskjá í garðinum. Einnig verða all­ir leik­ir móts­ins sýnd­ir á Ing­ólf­s­torgi. 

„Við búumst við því að það verði þúsundir ef ekki tugþúsundir sem vilji safnast saman og horfa á leiki Íslands, þannig að við þurfum stærri umgjörð og flytjum það yfir í Hljómskálagarðinn.“, sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is í dag.

Dagur ásamt Guðna Bergssyni, formanni KSÍ, kynnti áform Reykjavíkurborgar og KSÍ um að sýna frá leikjum Íslands á HM-torgi í Hljómskálagarðinum í sumar. Guðni tók undir með Degi og sagðist eiga von á tugi þúsunda gesta.

HM-torgin verða með þeim hætti að sýnt verður frá öllum leikjum mótsins á Ingólfstorgi og jafnframt verður sýnt frá öllum leikjum Íslands í Hljómskálagarðinum. „Allir leikir keppninnar verða á Ingólfstorgi. Það þekkjum við og höfum gert það áður og oft skapast góð stemning.“ bætti Dagur við.

„Þetta verður sannkallað HM sumar hjá fólki“

Dagur og Guðni segja aðstöðuna í Hljómskálagarðinum betri og þar verði hægt að koma fyrir veitingavögnum, salernisaðstöðu og öllu nauðsynlegu til að gera upplifun gesta sem besta. „Þetta verður samastaður fyrir sameiginlegar minningar.“,segir Dagur og býst við mikilli stemningu „út um allt, á veitingastöðum, í heimahúsum og í öllum hverfunum.“

Jafnframt segist Dagur gera ráð fyrir því að eftirspurnin verði meiri heldur en þegar Evrópukeppnin fór fram í Frakklandi fyrir tveimur árum. Það séu ekki eins margir sem fara til Rússland og fóru til Frakklands. Hann segir að þetta verði heilmikið tilstand og mikið þurfi að koma til svo að upplifun gesta verði sem allra best. Eðlilegt samráð verður haft við lögreglu og slökkvilið og reiknar Dagur með því að eftirlit verði „ekki mjög sýnilegt en nægjanlegt“.

Útiloka ekki sölu áfengis

Aðspurðir um hvort þeir gætu séð fyrir sér sölu áfengis á HM-torgunum í sumar gátu hvorki Dagur né Guðni gefið endanlegt svar. „Það er ekki útilokað að einhverjir fái vínveitingaleyfi.“ sagði Dagur meðan Guðni tók varlegar til máls og sagðist vilja hafa vaðið fyrir neðan sig en aðalatriðið væri þó að vel væri farið með áfengi ef sala þess yrði leyfð.

Frá leik Englands og Íslands á EM í Frakklandi fyrir …
Frá leik Englands og Íslands á EM í Frakklandi fyrir tveimur árum mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert