„Verulega erfitt og þungt ástand“

29 sjúklingar liggja á göngum bráðamóttökunnar í dag.
29 sjúklingar liggja á göngum bráðamóttökunnar í dag. mbl.is/Hjörtur

„Það er verulega erfitt og þungt ástand á bráðamóttökunni í dag. Í morgun voru 29 sjúklingar sem höfðu lokið bráðamóttökuþjónustu og voru að bíða eftir innlögnum á legudeildir. Það skapar mikið plássleysi á bráðamóttökunni því það eru bara 34 rúm á allri deildinni,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.

Ekki er hægt að rekja ástandið á bráðamóttökunni nú til ákveðinnar veikindahrinu eða faraldar smitsjúkdóma, heldur er um að ræða viðvarandi ástand sem er misslæmt. Í dag er það sérstaklega slæmt.

„Þetta er ákveðin keðjuverkun. Annars vegar er um að ræða lokanir á legudeildum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum, sem gerir það að verkum að sjúklingar festast hjá okkur. Hins vegar eru ennþá margir sjúklingar á spítalanum sem eru með færni- og heilsumat en komast ekki á hjúkrunar- eða dvalarheimili. Þetta eru grundvallarástæður fyrir þessu, en einkennin koma fyrst og fremst fram á bráðamóttökunni. Fólk safnast saman þar og flöskuháls myndast.“

Jón Magnús segir ástandið hafa farið stigvaxandi síðustu dagana, en það sé óvenju slæmt í dag.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni, segir ástandið hafa farið …
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni, segir ástandið hafa farið stigvaxandi síðustu daga. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Vegna ástandsins er hætt við því að þeir sem ekki eru með bráð vandamál þurfi að bíða ansi lengi eftir þjónustu, en Jón Magnús tekur fram að allir þeir sem þurfi á aðkallandi þjónustu að halda vegna veikinda eða slysa fái hana strax.

Þá segir hann bráðamóttökuna vera í góðu samstarfi við heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu og læknavaktina og fólki með minna aðkallandi mál sé vísað þangað.

Þetta er ekki í fyrsta skipti á þessu ári sem ástandið á bráðamóttökunni er sérstaklega erfitt, en í febrúar var ástandið svo slæmt að heilbrigðisráðherra var sérstaklega upplýstur um alvarlega stöðu. Þá var ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga sem á bráðamóttökuna leituðu.

Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra lagði þá áherslu á að hratt yrði unnið að þeim verk­efn­um sem höfðu verið ákveðin til að efla heil­brigðis­kerfið og styrkja mönn­un þess. Vísaði hún til yfirlýsingar þess efnis undirritaða af for­sæt­is-, fjár­mála- og heil­brigðisráðherra. Þar kem­ur meðal ann­ars fram að farið verði í um­bæt­ur á kjör­um og starfs­um­hverfi heil­brigðis­starfs­manna. Ráðherra legg­ur einnig áherslu á upp­bygg­ingu hjúkr­un­ar­rýma sem veiga­mik­inn þátt í að styrka heil­brigðis­kerfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert