Dómur ómerktur vegna vanhæfis

Hæstiréttur Íslands ómerkti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur.
Hæstiréttur Íslands ómerkti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Hæstiréttur hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem var dæmdur til að greiða Landsbanka Íslands skuld samkvæmt tveimur lánssamningum upp á  tæpar 130 milljónir króna.

Lánssamningarnir snerust um kaup á tveimur íbúðum fyrir um tíu árum síðan. 

Maðurinn vísaði málinu til Hæstaréttar og krafðist ómerkingar héraðsdóms á þeim grundvelli að dómarinn sem fór með málið í héraði hafi verið vanhæfur til meðferðar þess vegna setu sinnar í skilanefnd Landsbanka Íslands hf. og bankaráði Landsbankans.

Í dómi sínum féllst Hæstiréttur á að vegna tilurðar og meðferðar þeirra krafna sem aðilar höfðu uppi og með hliðsjón af störfum héraðsdómarans á þeim tíma sem um ræddi, mætti með réttu draga í efa óhlutdrægni hans við úrlausn málsins.

Hinn áfrýjaði dómur var því ómerktur og var málinu vísað heim í hérað.

Málið var upphaflega höfðað í ágúst 2016 af Landsbankanum og var málið dómtekið að lokinni aðalmeðferð 7. september í fyrra. Úrskurður var kveðinn af upp af héraðsdómi 26. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert