Dugar fyrir Árnessýsluna eina

Lögreglubifreið í forgangsakstri á fullri ferð. Mynd úr safni.
Lögreglubifreið í forgangsakstri á fullri ferð. Mynd úr safni. mbl.is/​Hari

Álag á lögreglumenn á Suðurlandi er mikið, enda nær umdæmið yfir um þriðjung af öllu landinu. Þetta segir Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, og kveðst um margt sammála Snorra Magnússyni, formanni Landssambands lögreglumanna.

Banaslysið, sem varð á Suðurlandsvegi seinni partinn í gær er áttunda banaslysið sem orðið hefur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi á árinu og var haft eftir Snorra í hádegisfréttum RÚV að álagið á lögreglumenn væri orðið ómanneskjulegt. Lögreglumönnum á Suðurlandi hefði enda fjölgað mjög lítið undanfarin tuttugu ár, þrátt fyrir fjölgun íbúa og ferðamanna í umdæminu.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir álagið á lögreglumenn hafa …
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir álagið á lögreglumenn hafa hefur aukist í samræmi við aukin fjölda fólks á svæðinui. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Álagið hefur aukist í samræmi við aukin fjölda fólks á svæðinu, bæði íbúa, dvalargesti sumarhúsa og ferðamenn og þeim fylgja aukin verkefni,“ segir Oddur. „Ef lögreglumönnum fjölgar ekki, þá þurfa hinir að hlaupa hraðar.“

Níundi sem lætur lífið á árinu

Álag að koma á slysstað

Umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi er 30.900 km2 og nær því yfir um þriðjungur af öllu landinu. Oddur bendir á að auk þess séu líka í umdæminu fámennar stöðvar þar sem langt sé í aðstoð. „Við erum líka með alveg stórkostlegt lið í sjúkraflutningum og í hlutastarfi í slökkviliði og björgunarsveitir sem eru líka undir þetta álag settar, eins og öll öryggisþjónusta í umdæminu.“ Verulega muni um vinnu þessa fólks, en vissuleg sé álag á lögreglumenn í umdæminu mikið og alltaf sé álag að koma á slysstað.

Snorri sagði einnig að sýnileg löggæsla gæti dregið úr umferðarslysum og kveður Oddur rannsóknir hafa verið gerðar sem sýni fram á slíkt. „Það eru til rannsóknir sem sýna að sýnileg löggæsla hefur beinlínis áhrif á ökulag og hegðun í umferðinni,“ segir hann.

Ekki sé heldur hægt beita kennslu sem forvörnum þar sem ferðamenn eigi í hlut. „Þetta er fólk sem kemur og er í nokkra daga og er svo farið. Þannig að það er ekki verið að kenna því fólki inn á þessa umferð, heldur þarf að  grípa inn í og vekja athygli ferðamanns á því að hann þurfi að fara að lögum í umferðinni. Sýnilega löggæslan er það eina sem gerir það,“ segir Oddur.

Spurður hversu margir lögreglumenn þyrftu að vera á Suðurlandi svo vel eigi að vera, segir Oddur að í úttekt ríkislögreglustjóra frá 2007 hafi niðurstaðan verið sú að í Árnessýslu einni þyrftu að vera 36 lögreglumenn. „Við erum hins vegar með rétt um 40 lögreglumenn í umdæminu öllu í dag.“

Ferðamönnum í umdæminu hefur fjölgað umtalsvert frá því að að úttekt ríkislögreglustjóra var gerð og segir Oddur fjöldann í umdæminu öllu í dag, því væntanlega vera tilvalinn fyrir Árnessýsluna eina. „Draumurinn hjá okkur er líka að stækka sólarhringsvaktina. Við erum með sólarhringsvakt í Árnessýslu og við myndum vilja vera með sólarhringsvakt á Hvolsvelli líka. Því það myndi auka öryggi íbúa og ferðamanna á þessum fjölsóttu ferðamannastöðum og þá yrði hægt að ná í lögreglu þar allan sólarhringinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert