Færri „húh-arar“ á HM en EM

Vel stemmdir stuðningsmenn íslenska landsliðsins.
Vel stemmdir stuðningsmenn íslenska landsliðsins. mbl.is/Golli

Víkingaklappið og „húh-ið“ séríslenska, sem glöddu heimsbyggðina meðan á EM í fótbolta karla stóð í Frakklandi fyrir tveimur árum, munu án efa hljóma á leikvöngunum í Moskvu, Rostov og Volgograd á leikjum Íslands á heimsmeistaramótinu í næsta mánuði.

Hins vegar er ljóst að mun færri stuðningsmenn fylgja landsliði Íslands héðan að heiman á HM en á EM svo hver og einn þarf að klappa fastar og „húh-a“ hærra ef stuðningurinn á að vera samur.

Miðað við þær upplýsingar sem Morgunblaðið hefur aflað sér má gera ráð fyrir að um 4.000 Íslendingar hafi fengið miða á leikina gegn Nígeríu í Volgograd 22. júní og gegn Króatíu í Rostov fjórum dögum síðar en líklega voru um 10.000 Íslendingar á leikjum liðsins í Frakklandi á sínum tíma. Tvennum sögum fer af mögulegum fjölda íslenskra áhorfenda á fyrsta leik Íslands, gegn Argentínu 16. júní. Einn viðmælandi í ferðabransanum gerði ekki ráð fyrir að fleiri en 2.000 Íslendingar yrðu viðstaddir þann leik.

Mikill áhugi á fyrsta leiknum

Langmest spurn var eftir miðum á leikinn gegn Argentínu héðan af ísa landi en áhuginn einskorðaðist reyndar fráleitt við stuðningsmenn liðanna tveggja sem þar eigast við; þetta er einn fjögurra leikja á mótinu öllu sem flestir vilja sjá; auk hans eru það leikirnir tveir í undanúrslitunum og úrslitaleikurinn!

Samkvæmt upplýsingum ganga miðar í fjórða og ódýrasta verðflokki – verstu sætin sem í boði eru – á leik Íslands og Argentínu nú á um 800 dollara, um það bil 80.000 krónur. Miðar í betri sæti eru því að öllum líkindum einhvers staðir falir fyrir margfalt það verð.

Rými verður fyrir liðlega 40.000 áhorfendur á hverjum leik Íslands, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert