Gústi guðsmaður tekur á sig mynd

Séra Vigfús Þór Árnason frá áhugamannafélaginu Sigurvin heimsótti listakonuna í …
Séra Vigfús Þór Árnason frá áhugamannafélaginu Sigurvin heimsótti listakonuna í gær, Ragnhildi Stefánsdóttur, sem er að gera styttuna af Gústa. mbl.is/Valli

Um þessar mundir er listakonan Ragnhildur Stefánsdóttir, sem m.a. gerði brjóstmyndina af séra Bjarna Þorsteinssyni, tónskáldi og fyrsta heiðursborgara Siglufjarðar, að fullvinna styttu af Gústa guðsmanni, Ágústi Gíslasyni.

Styttan verður steypt í brons í Þýskalandi og reist á Ráðhústorginu á Siglufirði og væntanlega afhjúpuð/vígð á afmælisdegi Gústa þann 29. ágúst næstkomandi.

Sigurvin, áhugamannafélag um minningu Gústa guðsmanns, á veg og vanda af því að minnisvarðinn verði reistur, á 100 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar, nú Fjallabyggðar.

Við hæfi þykir að styttan verði á Ráðhústorginu í bænum, en þar boðaði Gústi orðið í ein 40 ár.

„Ánægjulegt er að skynja og heyra hve slík gjöf til Siglufjarðarkaupstaðar, á eitt hundrað ára afmæli kaupstaðarins, vekur mikla athygli. Söfnun til að kosta styttuna hefur staðið yfir í stuttan tíma og gengur mjög vel. Erum við fullviss um að hin ýmsu fjárframlög, stór og smá, munu fjármagna gerð styttunnar sem kosta mun um 10 milljónir króna,“ segir í greinargerð frá áhugamannafélaginu Sigurvin.

Opnaður hefur verið reikningur í Arion banka á Siglufirði sem ber heitið Sigurvin, eins og bátur Gústa sem varðveittur er á Síldarminjasafni Siglufjarðar. Ágúst Gíslason var fæddur í Hvammi í Dýrafirði árið 1897. Hann lést árið 1985 og hvílir í Siglufjarðarkirkjugarði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert