„Heiðarlegt og gott samtal“

Harpa böðuð ljósum.
Harpa böðuð ljósum. Ljósmynd/Harpa

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, fundaði í dag með með Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, um stöðu 20 þjónustufulltrúa sem sögðu upp störfum í Hörpu í síðustu viku. Forstjóri Hörpu segir að fundurinn hafi verið góður og hreinskiptinn. Engin niðurstaða liggur fyrir eftir fundinn en unnið er að því að móta tillögur að mögulegum lausnum sem allir geti vonandi verið sáttir við. 

Svanhildur óskaði eftir fundinum, sem fór fram í höfuðstöðvum VR, eftir að uppsagnir þjónustufulltrúanna urðu að miklu umfjöllunarefni í fjölmiðlum.

Fundurinn gekk vel að sögn Svanhildar, hann var hreinskiptinn og laus við öll átök. „Þetta var mjög góður og gagnlegur fundur, myndi ég segja. [...] Þetta var kannski fyrst og fremst upplýsingafundur. Það hefur kannski ýmislegt verið til umfjöllunar í fjölmiðlum sem var gott og gagnlegt að fara yfir sem og staðreyndir mála. Við gerðum það á þessum fundi og reifuðum mismunandi sjónarmið, þannig að þetta var heiðarlegt og gott, lausnamiðað samtal.“

Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.
Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu. mbl.is/Styrmir Kári

Aðspurð hvort niðurstöðu hefði verið náð á fundinum sagði Svanhildur: „Það er engin niðurstaða önnur en sú að við erum að vinna í þeim málum, við erum að finna leiðir og einhverja lausn sem að vonandi getur leitt til niðurstöðu sem allir geta verið sáttir við. Sú vinna hefur verið í gangi og mun væntanlega verða á næstu dögum.“

Ragnar Þór lét hafa eftir sér fyrir fundinn í dag að kröfur VR séu einfaldar, þær væru að launalækkanir þjónustufulltrúanna yrðu dregnar til baka og að viðurkennt yrði að mistök hefðu verið gerð. „Það er allt til skoðunar í þessu,“ segir Svanhildur.

Ekki í kjaraviðræðum við VR

Svanhildur tók þó fram að málið snerist ekki um VR, engar kjaraviðræður væru í gangi við VR heldur snerist málið fyrst og fremst um starfsmenn Hörpu. Starfsmönnum sé borgað samkvæmt kjarasamningum með 15% álagi.

Hún reiknar með að hitta þjónustufulltrúana á næstu dögum og halda áfram samtali við þá. Það sé enn tími til stefnu enda taki uppsagnirnar ekki gildi fyrr en 1. júní. Ekki er komin dagsetning á þann fund. Stjórn Hörpu kemur saman 30. maí.

Ragnar Þór, formaður VR.
Ragnar Þór, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert