Spá hvassviðri eða stormi

Hér má sjá spákortið á hádegi á laugardag.
Hér má sjá spákortið á hádegi á laugardag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Í dag hvessir á landinu og síðdegis er útlit fyrir suðaustan 13-20 m/s, talsverða rigningu og snarpar hviður við fjöll. Heldur hægari vindur og þurrt fram á kvöld á Norður- og Austurlandi. Hitinn verður 7 til 15 stig og hlýjast verður norðaustan til á landinu. Vindur snýst svo í hægari suðvestanátt vestanlands í kvöld og þá dregur úr úrkomu. Einnig fer að kólna í veðri, segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands nú í morgun.

Veðurvefur mbl.is.

Horfur eru á suðvestan 5-13 á morgun með skúrum eða slydduéljum vestan til, en léttir til á austanverðu landinu. Hiti 3 til 10 stig, mildast austast.

Það dregur svo aftur til tíðinda á laugardag, þá gera spár ráð fyrir að gangi í suðaustanhvassviðri eða jafnvel storm, sem telst óvenjulegt á þessum árstíma, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðingsins. „Þessi vindstyrkur getur hæglega feykt trampólínum langar leiðir, svo dæmi sé tekið. Með vindinum fylgir einnig rigning í talsverðu magni. Á norðanverðu landinu verður vindurinn aðeins skárri og rigningin minni.“

Lægðin sem veldur hvassviðrinu á laugardag er ekki úr sögunni á sunnudag, heldur tekur sér stöðu skammt vestur af landi og viðheldur stífum vindi með vætu allan sunnudaginn, ef spár ganga eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert