Þung staða en léttari en í gær

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Staðan er ennþá þung en hún er léttari en hún var í gærmorgun,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.

Átján sjúklingar bíða innlagnar eftir að hafa lokið bráðamóttökumeðferð en mikið álag er á öllum deildum spítalans, að sögn Jóns Magnúsar.

„Við vonumst til þess að fjórir til fimm sjúklingar til viðbótar muni fá pláss á deildum spítalans í kvöld.“

Sjúklingarnir sem eru mest veikri bíða inni á stofu eða í herbergjum á bráðadeildinni en þeir sem eru minna veikir bíða á göngum bráðamóttökunnar. Hann segir ástandið á göngunum töluvert betra en í gær og að heildarfjöldi sjúklinga sé minni en í gær.

„Mér sýnist fólk hafa tekið mark á ráðleggingum okkar um að koma ekki með minna bráð mál á bráðamóttökuna.“

Síðasta sólarhringinn, eða frá klukkan 16 í gær, hafa 67 einstaklingar komið á bráðamóttökuna, þar sem meðaltalið á einum sólarhring er í kringum 85. Jón Magnús segir að þetta hafi hjálpað mikið til við að greiða úr stöðunni sem hefur verið uppi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert