Aukning um rúmlega 80 milljónir til heilsugæslu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Hari

„Við búum við mjög gott heilbrigðiskerfi á alþjóðlegan mælikvarða en við vitum líka að það er að sumu leyti brotakennt og skortir samfellu í þjónustunni,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, sem kynnti í dag stofnun þróunarmiðstöðvar heilsugæslu á landsvísu.

„Vitund almennings um það hvert á að leita er kannski ekki nægilega góð. Við þurfum að gera betur í að upplýsa fólk um það hvaða þjónustu er að finna á hverjum stað,“ bætir hún við.

Þróunarmiðstöðin er byggð á grunni Þróunarstofu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en verður sjálfstæðari og með víðtækara hlutverk eftir breytingu á reglugerð.

Miðstöðin á að verða vettvangur sem hefur það hlutverk að halda utan um þekkingu, þróa hana og miðla henni til heilbrigðisstofnana um land allt til þess að jafna aðgengi íbúa landsins að öflugri og góðri heilbrigðisþjónustu.

„Það sem við erum að gera þarna er að efla heilsugæsluþjónustu um allt land," segir ráðherra. „Við erum í raun og veru að styrkja þessa framlínu íslenska heilbrigðiskerfisins sem á að vera heilsugæslan og festa hana í sessi enn frekar sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu.“

Fjármögnun til reiðu

Aukning fjármuna til heilsugæslunnar vegna miðstöðvarinnar mun nema 81,6 milljónum króna samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu. Svandís segir fjármögnunina til reiðu og hægt sé að hefja undirbúning nú þegar.

Næst á dagskrá verður að kalla eftir tilnefningum frá heilbrigðisstofnunum sem munu eiga fulltrúa í fagráði sem heilbrigðisráðherra skipar.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun í framhaldinu ráða forstöðumann sem kemur til með að veita fagráðinu forystu.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólms.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólms. Ljósmynd/Velferðarráðuneytið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert