„Í áfalli fyrstu mínúturnar“

Rúmensku fjallgöngumennirnir hvíla sig inni í tjaldi áður en þeir …
Rúmensku fjallgöngumennirnir hvíla sig inni í tjaldi áður en þeir lentu í hremmingunum. Ljósmynd/Aðsend

Alpár Katona og Zoltán Szénássý, rúmensku fjallgöngumennirnir sem lentu í snjóflóði á Vatnajökli, safna nú kröftum á Höfn í Hornafirði eftir svaðilfarir undarfarinn sólarhring.

„Við áttum ekki von á því að lenda í snjóflóði og það var slæm tilfinning að berast með flóðinu,“ segir Alpár og bætir við að félagi hans hafi farið alveg á kaf.

„Við vorum í áfalli fyrstu mínúturnar þegar við uppgötvuðum að allur okkar búnaður hafði sópast í burtu. Við höfum stundað fjallgöngur í 20 ár og náðum fljótt áttum. Það er mikilvægt að hugsa skýrt og taka réttar ákvarðanir í þeim aðstæðum sem við lentum í. Fljótlega fundum við mat, vatn og svefnpokana okkar en skíði, tjaldið og annar búnaður fannst ekki,“ segir Alpár sem er mjög þakklátur björgunarsveitarmönnum sem hann segir að hafi fundið þá mjög fljótt og allt skipulag hafi verið til fyrirmyndar.

Félagarnir tveir, Alpár og Zoltán.
Félagarnir tveir, Alpár og Zoltán. Ljósmynd/Facebook-síða Alpár

Hrósar björgunarsveitarmönnum

Alpár segir að það hafi verið verst að týna skíðunum. „Við hefðum ekkert komist áfram án skíða í þeim stormi sem þarna geisaði og þess vegna ákváðum við að grafa okkur í fönn. Við vorum búnir að vera lengi á ferðinni og því orðnir mjög þreyttir,“ segir hann og heldur áfram að hrósa björgunarsveitarmönnum sem tóku þátt í leitinni.

„Þeir gáfu okkur að drekka, létu okkur hafa þurr föt, sjúkraliði kíkti á okkur og ég held að það hafi verið sálfræðingur sem talaði við okkur í heitum bílnum á leiðinni. Þegar á Höfn var komið keyrðu þeir okkur á gististað og kvöddu,“ segir Alpár.

Frá björguninni.
Frá björguninni. Ljósmynd/Landsbjörg

Í kvöld ætla Alpár og Zoltán að hvíla sig eftir að hafa vakað meira og minna í tvo sólarhringa.

„Eftir góðan svefn verður allt betra. Við fljúgum af landi brott á þriðjudag og vonumst til þess að geta skoðað meira af hinu fallega Íslandi fyrir þriðjudaginn,“ segir Alpár sem ætlar að koma aftur með fjölskylduna til landsins. 

Alpár vildi í lok viðtalsins senda björgunarmönnum sínar innilegustu þakkir frá innstu hjartarótum fyrir björgunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert